Brenndu drenginn lifandi

Móðir Abu Khdeir í réttarsalnum í dag.
Móðir Abu Khdeir í réttarsalnum í dag. AFP

Tveir ungir Ísraelsmenn voru í dag dæmdir í lífstíðar- og 21 árs fangelsi fyrir að hafa brennt palestínskan táning lifandi árið 2014.

Báðir voru mennirnir ólögráða þegar árásin, þar sem þeir gripu Mohammed Abu Khdeir sem var 16 ára, með hjálp þriðja mannsins, af götu í austur Jerúsalem og myrtu hann síðan.

Sá yngsti þremenninganna, sem fékk 21 árs dóm, er sagður glíma við geðrænan vanda og var það niðurstaða dómara í málinu að hann hefði beðið í bíl þeirra á meðan Abu Khdeir var myrtur.

Yosef Haim Ben-David, 31 árs, er sagður hafa leitt árásina en lögmenn hans segja hann þjást af geðsjúkdómi. Niðurstaða dómara var sú að hann hefði framið glæpinn en enn er ekki komið í ljós hvort hann verður fundinn ábyrgur gjörða sinna og hvaða dóm hann fær.

Hinir tveir voru 16 ára þegar árásin átti sér stað en eru nú 18. Nöfn þeirra hafa ekki verið gefin upp vegna ungs aldurs þeirra en þeir eru báðir úr gyðingafjölskyldum sem aðhyllast ofur-rétttrúnað.

Móðir Abu Khdeir, Suha, öskraði þegar dómurinn var kveðinn upp í troðfullum réttarsölnum. Bæði hún og eiginmaður hennar Hussein gagnrýndu að yngri drengurinn hefði aðeins hlotið 21 árs dóm og kallaði eftir því að heimili mannanna yrðu jöfnuð við jörðu eins og Ísrael gerir reglulega við heimili palestínskra árásarmanna.

„Þetta er líf Mohammed sem við erum að tala um,“ sagði Suha Abu Khdeir. „Hann átti þetta ekki skilið.“

Saksóknari Jerúsalem kvaðst í yfirlýsingu hafa farið fram á ævilanga fangelsisvist yfir báðum drengjunum sem nú teljast menn í skilningi laganna.

„Þeim hræðilega harmleik sem henti fjölskyldu drengsins Mohammed Abu Khdeir er ekki hægt að snúa við, en dómurinn sem féll í dag sendir skilaboð um andúð samfélagsins á slíkum málum,“ sagði í tilkynningunni.

Móðir Abu Khdeir öskraði við dómsuppkvaðninguna.
Móðir Abu Khdeir öskraði við dómsuppkvaðninguna. AFP

Fórnarlambið valið af handahófi

Morðið á Abu Khdeir var hluti hringiðu ofbeldis sem leiddi til 50 daga stríðs á Gaza sumarið 2014.  Honum var rænt og hann var barinn af árásarmönnum en brunnið lík hans fannst klukkutímum síðar í skógi í vesturhluta Jerúsalem.

Skýrsla réttarmeinafræðings sýndi að reykur hefði komist í lungu hans sem bendir til þess að hann hafi verið á lífi þegar kveikt var í honum.

Talið er að ódæðið hafi verið hefnd vegna morða á Ísraelsmönnunum Naftali Frenkel, Gilad Shaer and Eyal Yifrach, sem var rænt frá stoppistöð puttaferðalanga í nágrenni borgarinnar Hebron á Vesturbakkanum.

Yfirvöld í Ísrael sögðu hina þremenninganna hafa ákveðið að myrða araba í hefndarskyni og vopnast kapalbindum, bensíni og öðrum efnum áður en þeir völdu fórnarlamb sitt af handahófi.

Mikill spenna er á svæðinu sem stendur og kemur dómurinn á eldfimum tíma. Ísraelsmenn settu í dag á útgöngubann á Vesturbakkanum í heimabæ Palestínumanna sem myrti 19 ára lögreglukonu og særði annan lögreglumann í Jerúsalem í gær. Gerningsmennirnir þrír, frá Qabatiya eru taldir hafa verið 19 til 20 ára en þeir voru skotnir til bana á meðan á árásinni stóð.

Ættingjar Abu Khdeir halda á myndum af honum utan við …
Ættingjar Abu Khdeir halda á myndum af honum utan við dómssalinn í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert