„Of duglegi“ námsmaðurinn snýr aftur

Marius Youbi er hæstánægður með að fá að koma aftur.
Marius Youbi er hæstánægður með að fá að koma aftur. Skjáskot/ DR/YouTube

Verkfræðineminn Marius Youbi frá Kamerún sem sendur var frá Danmörku fyrir að vinna of mikið með námi er á leið til landsins á ný.

Youbi er 31 árs gamall og er í námi við Háskólann í Árósum. Hann var rekinn frá landinu fyrir að vinna 16,5 klukkustundir á viku við skúringar sem er 90 mínútum meira en leyfilegt er fyrir nemendur frá löndum utan Evrópusambandsins.

Frétt mbl.is: Sendur úr landi fyrir 90 mínútna vinnuviku.

Málið vakti mikla reiði og leiddi af sér bæði mótmæli og undirskriftalista enda þótti stuðningsmönnum hans málið sýna skýrt stóran galla á innflytjendalögum, en allt kom fyrir ekki.

Það eru nefnilega ekki yfirvöld sem hafa séð að sér og boðið honum skólavist að nýju heldur hefur Youbi verið ráðinn til vinnu sem verkfræðingur af KK Wind Solutions. Með nýja starfinu fylgir búsetuleyfi sem gerir honum kleift að taka aftur upp þráðinn í Danmörku.

„Þetta eru mjög góðar fréttir. Ég fæ ekki einu sinni lýst því hversu glaður ég er,“ sagði Youbi Herning Folkeblad samkvæmt TheLocal.dk.

 Búsetuleyfið gildir til 2018 og er endurnýjanlegt sé hann enn í föstu starfi hjá dönsku fyrirtæki.

Mál Youbi skaut fyrst upp kollinum í dönskum fjölmiðlum í desember en þá var honum gert að yfirgefa landið fyrir 8. janúar. Stjórn Háskólans í Árósum samþykkti að flýta prófunum hans, sem annars hefðu verið í janúar, og Youbi tók þrjú próf á einum degi eftir aðeins tveggja sólarhringa undirbúning. Hann fékk 12 í öllum prófunum sem er hæsta einkunn sem gefinn er í dönskum háskólum.

Talsmaður nýbakaðs atvinnuveitanda Youbi sagði að með því að bjóða honum starf vildi fyrirtækið tryggja sér aðgang að hæfileikum hans.

„Fremst af öllu finnst okkur að Marius ætti að fá að ljúka við menntun sína. Í öðru lagi, höfum við með þessu atvinnutilboði fengið forskot á ráðningu sem hefði næstum örugglega átt sér stað síðar hvort eð er,“ sagði  Henrik Lykke Christiansen við Herning Folkeblad. 

Youbi segist búast við því að snúa aftur til Danmerkur innan tveggja vikna.

Hér að neðan má sjá myndskeið DR af því þegar Youbi kom út úr prófunum í desember með þrjár tólfur í farteskinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert