Aðstoða fatlaða við kynlíf

Sumt aðstoðarfólkið hefur samfarir við viðskiptavini sína en annað dregur …
Sumt aðstoðarfólkið hefur samfarir við viðskiptavini sína en annað dregur línuna við nudd og kennslu AFP

Tomas Pik, 26 ára hreyfihamlaður tékkneskur karlmaður, hefur reitt sig á þjónustu vændiskvenna síðustu ár til að mæta kynferðislegum þörfum sínum. Sumar þeirra vilja aftur á móti ekki selja honum þjónustu sína þegar þær komast að því að hann glímir við taugasjúkdóm.

Hann er einn þeirra sem nýtir sér nýja þjónustu sem boðið er upp á í Tékklandi en þar er hægt að kaupa þjónustu kynferðislegs aðstoðarfólks. Þau mæta þörfum viðskiptavina sinna sem glíma við andlega og/eða líkamlega fötlun en hafa einnig við þjálfuð til að aðstoða þau við að uppgötva og stjórna kynhneigð sinni.

Pik ræðir við fréttamann AFP yfir kaffibolla og segir honum frá reynslu sinni af þjónustunni. Hann segist ekki hafa mikið sjálfstraust og tengir það við sjúkdóminn sem hann glímir við. Steininn hafi aftur á móti tekið úr þegar vændiskonurnar höfnuðu honum.

Nú getur hann aftur á móti greitt fyrir þjónustu og verið viss um að aðstoðarfólkið hafnar honum ekki. Með þjónustunni fylgir Tékkland í fótspor þjóða á borð við Holland, Danmörku, Frakkland, Þýskaland og Sviss. Um tvö ár tók að koma þjónustunni á fót.

Pik er ófeiminn við að ræða þjónustuna og stofnaði hann meðal annars Facebook-síðu til þess. Hann útskýrir að aðstoðarfólkið sé ekki á höttunum viðskiptavinum til frambúðar, heldur sé markmiðið að aðstoða þá við að finna sér elskhuga.

Hann segir verkefni aðstoðarfólksins meðal annars snúast um að kenna viðskiptavinunum að nota kynlífsleikföng og stunda sjálfsfróun þar sem enginn annar vilji tala um það við fólkið. Afar misjafnt er hversu mikla þjónustu viðskiptavinirnir vilja eða hvað þjónustufólkið vill veita. Sumt aðstoðarfólkið hefur samfarir við viðskiptavini sína en annað dregur línuna við nudd og kennslu.

„Ég býð ekki upp á samfarir eða munnmök, aðeins snertingar, nudd, faðmlög, kossa og nekt,“ segir Iva, aðstoðarkona frá bæ norðvestur af Prag. Hún segir suma viðskiptavinina sem glími við andlega eða líkamlega fötlun eiga mjög erfitt með að gera sig skiljanlega en þá notar hún myndir til að komast að því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert