„Hve sætur hann er!“

Assange með pírð augun gegnt sólu.
Assange með pírð augun gegnt sólu.

Brosandi og með pírð augu gegnt dagsbirtunni ávarpaði stofnandi WikiLeaks, Julian Assange, stuðningsmenn sína og fjölmiðla frá svölum sendiráðs Ekvador í dag eftir að nefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna lýsti því yfir að hann sætti ólögmætu varðhaldi.

„Hve sætur hann er! Þetta er sigur sem ekki er unnt að neita. Þetta er sögulega mikilvægur sigur,“ sagði Ástralinn umdeildi og skók eintak af niðurstöðu nefndarinnar, að því er virtist ofirliði borinn af tilfinningum sínum.

Fyrr um daginn hafði hann gefið út myndskeið til blaðamanna þar sem hann sagði það nú vera hlutverk Bretlands og Svíþjóðar að fylgja niðurstöðunni eftir.

Þyrping blaðamanna og ljósmyndara, ásamt um tuttugu stuðningsmönnum, höfðu beðið Assange við svalirnar frá því fyrir sólarupprás. Assange náði fyrst athygli heimsins árið 2010 í kjölfar þess að Wikileaks birti upptökur, leyniskjöl og samskiptabréf sendiráða Bandaríkjanna. Assange hefur búið í sendiráðinu síðan í júní 2012 eftir að hafa fullreynt fyrir breskum dómstólum þá kröfu sína að vera ekki framseldur til Svíþjóðar vegna ásakanna um kynferðisbrot gegn tveimur konum.

Segir hann framsalskröfu Svíþjóðar yfirvarp fyrir áætlanir um framsal til Bandaríkjanna þar sem fangelsisdómur blasir við. Aðaluppspretta þeirra skjala sem WikiLeaks sendi frá sér, bandaríski hermaðurinn Chelsea Elizabeth Manning, var dæmd í 35 ára fangelsi fyrir hlut sinn í málinu.

Ekvador hefur veitt Assange pólitískt hæli.

Nefnd Sameinuðu þjóðanna kallaði eftir því að Svíþjóð og Bretland myndu gera Assange að frjálsum manni að nýju og sögðu að „varðhaldi hans yrði að ljúka“ auk þess sem lagt var til að Assange fengi bætur vegna málsins.

Assange á svölum sendiráðsins í dag.
Assange á svölum sendiráðsins í dag. AFP

Móðgun við fórnarlambið

Bretland og Svíþjóð hafa fordæmt niðurstöður nefndarinnar og segjast engu munu breyta. Utanríkisráðherra Bretlands, Philip Hammond að Assange væri á flótta undan réttlætinu, að niðurstöðurnar væru fáránlegar og að ríkisstjórnin hafnaði þeim alfarið.

Sænska utanríkisráðuneytið sagðist „ekki sammála“ niðurstöðunum.

„Herra Assange getur yfirgefið sendiráðið hvenær sem er og sænsk yfirvöld hafa enga stjórn á þeirri ákvörðun hans að hafast við í sendiráðinu,“ sagði í tilkynningu ráðuneytisins.

Aðeins þrír af fimm meðlimum nefndar Sameinuðu þjóðanna studdu ákvörðunina. Einn meðlimur var ósammála og einn sat hjá þar sem viðkomandi er af sama þjóðerni og Assange. Ritari nefndarinnar sagði við kynningu í Genf að ríkin tvö hefðu tvo mánuði til að setja fram nýjar upplýsingar vilji þau knýja fram endurskoðun en bresk yfirvöld hafa sagst munu véfengja niðurstöðuna.

Meint kynferðisbrot Assange fyrnast ekki fyrr en árið 2020. Elizabeth Fritz, lögmaður annars þolandans, gagnrýndi niðurstöðuna í dag.

„Að maður sem er eftirlýstur fyrir nauðgun geti fengið bætur fyrir að fela sig viljandi fyrir réttarkerfinu í meira en fimm ár er móðgun gagnvart umbjóðanda mínum,“ sagði hún.

Sænsk yfirvöld greindu frá því í síðasta mánuði að Ekvador hefði neitað bón þeirra um að leyfa sænskum saksóknurum að yfirheyra Assange í sendiráðinu þar sem sendiherrann krafðist þess að aðeins saksóknari frá Ekvador fengi að yfirheyra Assange.

Aðaluppspretta þeirra skjala sem WikiLeaks sendi frá sér, bandaríski hermaðurinn Chelsea Elizabeth Manning, var dæmd í 35 ára fangelsi fyrir hlut sinn í málinu.

Stuðningsmaður Julian Assange utan við sendiráðið.
Stuðningsmaður Julian Assange utan við sendiráðið. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert