Máttu ekki senda syni sínum peninga

Frá Sýrlandi.
Frá Sýrlandi. AFP

Foreldrar Jack Letts, tvítugs Breta sem er grunaður um að hafa gengið til liðs við hryðjuverkasamtökin Íslamska ríkið í Sýrlandi, voru handtekin eftir að hafa gert tilraun til að senda honum peninga svo hann gæti keypt sér gleraugu. Hjónin voru látin laus gegn tryggingu og ræddu við fjölmiðla í kjölfarið.

Sally Lane og John Lets, foreldrar Jacks, seggja að hann hafi glímt við alvarlega áráttu- og þráhyggjuröskun á unglingsaldri. Faðir hans segir vera bálreiður vegna málsins.

„Mér finnst klikkað að við getum ekki sent syni okkar smámynt til að hjálpa honum að komast út eða hjálpa honum á nokkurn hátt af því að þá er litið svo á að við séum að styðja við hryðjuverk,“ sagði hann í samtali við fréttamann Channel 4 í Bretlandi í gær.

Faðir mannsins segir hjónin ekki vita nákvæmlega hvar sonur þeirra sé niðurkominn. Hann veltir fyrir sér hvaða foreldri myndi ekki reyna að aðstoða barn sitt svo það geti séð eðlilega. Móðir mannsins segist óttast mest að sonur þeirra komi ekki lifandi heim.

Ungi maðurinn er sagður vera fyrsti hvíti Bretinn til að ganga til hliðs við hópinn en hann fór til Sýrlands á síðasta ári. Hann hefur verið kallaður „Jihadi Jack“ en gengur nú undir nafninu Abu Mohammed. Hann er giftur konu frá Írak og eiga þau son saman.

Foreldrar hans sögðu einnig í viðtalinu að hann hefði sent þeim örvæntingarfull skilaboð þar sem hann segir að honum sé kalt, hann eigi ekki mat og sjái illa. 

Telegraph greinir frá

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert