Super Bowl í fimmtugasta sinn

Andre Caldwell úr Denver Broncos á æfingu fyrir leikinn.
Andre Caldwell úr Denver Broncos á æfingu fyrir leikinn. AFP

Úrslitaleikurinn í ameríska fótboltanum, Super Bowl, verður haldinn á sunnudagskvöld í fimmtugasta sinn. Leikurinn fór fyrst fram 1967 til að fagna samruna fótboltasamtakanna American Football Leage og NFL.

Coldplay veit ekkert um íþróttina

Breska hljómsveitin Coldplay er ákaflega spennt fyrir því að spila í hálfleik á sunnudagskvöld. Þrátt fyrir það vita þeir félagar lítið sem ekkert um íþróttina.

Chris Martin, söngvari Coldplay, vonast til að frammistaða sveitarinnar verði ein sú eftirminnilegasta til þessa. En hann viðurkennir að ólíklegt sé að meðlimir sveitarinnar skilji út á hvað viðureign Denver Broncos og Carolina Panthers gengur.

 „Ég held að við skiptust á milli þeirra sem vita nákvæmlega ekkert um amerískan fótbolta og hinna sem vita nákvæmlega ekkert um amerískan fótbolta,“ sagði gítarleikarinn Jonny Buckland á blaðamannafundi í léttum dúr.

Hljómsveitin Coldplay á blaðamannafundinum fyrir Super Bowl.
Hljómsveitin Coldplay á blaðamannafundinum fyrir Super Bowl. AFP

118,5 milljónir fylgdust með í fyrra

Ofurskálin er stærsti sjónvarpsviðburður ársins í Bandaríkjunum. Á síðasta ári fylgdust 118,5 milljónir manna með leikhléinu, sem er nýtt met. 

Coldplay verður fyrsti flytjandinn sem er ekki bandarískur síðan 2010 til að stíga á svið á Super Bowl en þá spilaði hljómsveitin fornfræga, The Who, einnig frá Bretlandi.

Tónlistarkonan vinsæla Beyonce og Bruno Mars munu einnig stíga á svið í hálfleik Ofurskálarinnar.

Sjálf Lady Gaga mun opna leikinn með því að syngja bandaríska þjóðsönginn.

Ungur aðdáandi leikur sér á lógóinu fyrir Super Bowl á …
Ungur aðdáandi leikur sér á lógóinu fyrir Super Bowl á Market Street í San Francisco. AFP

„Drónalaust svæði“

Bannað hefur verið að fljúga drónum í 50 km radíus frá Super Bowl-leikvanginum í Santa Clara í Kaliforníu.

Í myndbandi frá Flugmálastjórn Bandaríkjanna kemur fram að leikvangurinn sé „drónalaust svæði“.

Samkvæmt stofnuninni er leyfilegt að beita „banvænu valdi“ ef talið er að drón geti skapað hættuástand, að því er fréttavefur BBC greindi frá.

Þessi aðdáandi bíður spenntur eftir Ofurskálinni.
Þessi aðdáandi bíður spenntur eftir Ofurskálinni. AFP

Nánari upplýsingar um Super Bowl má finna hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert