Sýrlendingar streyma að landamærunum

Sýrlenskir flóttamenn bíða eftir því að fá tjöld.
Sýrlenskir flóttamenn bíða eftir því að fá tjöld. AFP

Fjöldi Sýrlendinga sem reyna að komast yfir landamærin til Tyrklands vegna aukinna átaka í Norður-Sýrlandi hefur nær tvöfaldast, að sögn tyrkneskra yfirvalda. Bæjarstjóri tyrkneska landamærabæjarins Kilis segir að 35 þúsund flóttamenn hafi nú náð að landamærunum, en í gær voru þeir 20 þúsund.

Tyrkir segjast reiðubúnir að hjálpa flóttamönnunum en þeir mæta þó luktum dyrum við landamærin, þar sem þeir reyna að flýja árásir sýrlensku ríkisstjórnarinnar á aðsetur andspyrnumanna nærri Aleppo.

Undanfarna daga hefur sýrlenski herinn, með stuðningi Rússa úr lofti, unnið þar nokkuð á. Bresk-sýrlenska mannréttindaeftirlitsstofnunin segir um 120 vígamenn úr röðum beggja fylkinga hafa látist í átökum í gær við bæinn Ratyan, norðan við Aleppo.

Harðneita að opna landamærin

Tyrkir útvega fæði, skjól og teppi fyrir þær þúsundir borgara sem strandaðir eru hinum megin við landamærin vegna átakanna. Tyrkir harðneita þó að opna landamærin.

Stækkunarstjóri ESB, Johannes Hahn, hvetur Tyrki til að opna landamærin.

„Genfarsáttmálinn er enn í gildi sem þýðir að þið verðið að taka við flóttafólki,“ sagði Hahn á blaðamannafundi í Amsterdam í dag þar sem utanríkisráðherrar aðildarríkja ESB ræða vandann.

4,6 milljónir flúið á fimm árum

Fulltrúar sextíu landa hittust í London á fimmtudag og hétu því að veita milljörðum evra til að létta á vanda flóttamannanna.

Um 4,6 milljónir Sýrlendinga hafa flúið land sitt á meðan borgarastyrjöldin hefur geisað undanfarin fimm ár. Þá herma heimildir fréttaveitu AFP að 13,5 milljónir til viðbótar þurfi mannúðaraðstoð innan landamæranna.

Tyrkland hýsir flesta flóttamenn sem þaðan hafa komið, eða 2,5 milljónir.

BBC greinir frá þessu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert