120 sagðir enn fastir í rústunum

Fórnarlambi skjálftans lyft upp úr rústunum.
Fórnarlambi skjálftans lyft upp úr rústunum. AFP

Björgunarfólk lagði allt kapp á það í dag að frelsa þá 120 sem grunað er að séu enn fastir í rústum íbúðabyggingar í Taívan. 28 hafa verið staðfestir látnir eftir jarðskjálftann en spurningar hafa vaknað um gæði þeirra bygginga sem verst urðu úti.

Af þeim sem enn eru fastir segja björgunarmenn 103 vera „mjög djúpt“ í rústunum. „Það er engin leið til þess að komast beint til þeirra. Þetta er mjög erfitt,“ sagði William Lai, borgarstjóri í Tainan.

Sextán hæða íbúðarhús með nær hundrað íbúðum féll saman eftir skjálftann sem var 6,4 að styrkleika. 26 af þeim 28 sem staðfest er að hafi látist voru þar inni. Embættismenn á staðnum hafa sagt rannsókn vera hafna á öryggi bygginganna og borgarstjóri Tainan hefur sagt eftirlifendur og aðstandendur hafa lagt fram kvartanir um brot á reglugerðum í byggingu húsanna.

Manni bjargað á lífi úr rústunum í dag (í gráum …
Manni bjargað á lífi úr rústunum í dag (í gráum jakka fyrir miðju). AFP

„Við höfum sett á laggirnar þrjár sjálfstæðar einingar sem munu safna gögnum á meðan á björguninnni stendur svo við getum aðstoðað íbúa ef þeir vilja höfða mál í framtíðinni. Við munum draga byggingarfyrirtækin til ábyrgðar ef þau hafa brotið lög,“ sagði Lai.

Fjölmiðlar á staðnum hafa sagt að byggingarfyrirtækið sem reisti húsið hafi hætt starfsemi og jafnframt lýst efasemdum um gæði byggingarefnis í húsinu. Aðstandandi átta manna fjölskyldu sem er enn föst í rústunum sagði íbúa einnig hafa kvartað. „Þau kvörtuðu yfir því að byggingin væri illa byggð, með sprungum í veggjum og flísum sem féllu af eftir jarðskjálfta á undanförnum árum.“

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert