Corbyn vill vera áfram í ESB

Jeremy Corbyn.
Jeremy Corbyn. AFP

Leiðtogi breska Verkamannaflokksins, Jeremy Corbyn, sagði í gær að hann teldi að hagsmunum Bretlands væri best borgið með því að vera áfram innan Evrópusambandsins. Sagði hann flokk sinn sömu skoðunar en þjóðaratkvæði er fyrirhugað í landinu um veru þess í sambandinu sem gæti hugsanlega farið fram í júní. Corbyn sagði Verkamannaflokkinn ætla að leggja áherslu á félagslegar hliðar þess að vera áfram innan Evrópusambandsins.

Fram kemur í frétt AFP að Corbyn hafi verið gagnrýninn á Evrópusambandið á stjórnmálaferli sínum. Haft er eftir honum að Verkamannaflokkurinn telji veru í sambandinu besta rammann utan um viðskipti og samvinnu og að hagsmunum bresku þjóðarinnar væri best borgið með þeim hætti. Hins vegar vildi flokkurinn eftir sem áður sjá umbætur á Evrópusambandinu í átt til aukins lýðræðis og aukin félagsleg réttindi verkafólks. Sömuleiðis að lögð væri áhersla á sjálfbæran hagvöxt og fleiri störf. Þá yrði að stöðva þrýsting á einkavæðingu opinberrar þjónustu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert