Drengur dæmdur fyrir morð

AFP

Dómstóll í Tennessee-ríki í Bandaríkjunum hefur fundið 11 ára gamlan dreng sekan um að hafa myrt átta ára stúlku í október sem vildi ekki sýna honum hvolpinn sinn. Drengurinn verður samkvæmt ákvörðun dómstólsins í haldi þar til hann verður 19 ára gamall. Ekki hefur verið ákveðið á hvaða stofnun drengnum verður komið fyrir samkvæmt frétt Daily Telegraph.

Fram kom í máli dómarans, Dennis Roach, að drengurinn þyrfti á endurhæfingu að halda og sálfræðimeðferð. Ekki væri hægt að leyfa barni sem fremdi morð að ganga lausu í samfélaginu. Drengurinn hafði átt í samskiptum við stúlkuna og systur hennar og bað þær um að fá að skoða hvolpinn þeirra en þær neituðu því. Drengurinn var þá staddur í hjólhýsi sem fjölskylda hans bjó í og talaði við stúlkurnar í gegnum glugga á því og hvarf úr honum eftir neitunina.

Skömmu síðar birtist drengurinn með haglabyssu og loftbyssu. Tilkynnti hann stúlkunum að hann væri vopnaður byssum. Stúlkan sem lét lífið hló að honum og sagðist ekki trúa því að byssurnar væru alvöru byssur. Drengurinn kannaði þá hvort haglabyssan væri hlaðin og skaut síðan stúlkuna rétt fyrir ofan hjartastað. Hún lést skömmu síðar í örmum móður sinnar. Fram kom fyrir dómi að drengurinn hefði stundað veiðar með föður sínum. Haglabyssan var löglega skráð.

Frétt mbl.is: Myrti 8 ára stúlku vegna hvolps

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert