Munu innleiða refsiaðgerðir

Skjáskot af eldflauginni úr sjónvarpsútsendingu Norður-Kóreu að sögn fjölmiðla í …
Skjáskot af eldflauginni úr sjónvarpsútsendingu Norður-Kóreu að sögn fjölmiðla í Suður-Kóreu.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fordæmdi í dag harðlega eldflaugaskot Norður-Kóreu. Ráðið hélt neyðarfund um eldflaugaskotið í dag og samkvæmt AFP var ákveðið að brátt yrði innleidd ályktun um refsiaðgerðir „sem viðbrögð við þessum hættulegu og alvarlegu brotum“.

Yfirlýsing ráðsins var studd af Kína, helsta bandamanni ríkisstjórnar Norður-Kóreu og hinum 14 meðlimum ráðsins.

Norður-Kóreumenn segja eldflaugaskotinu ætlað að koma gervihnetti á sporbraut en samkvæmt BBC telja aðrir að raunverulegur tilgangur skotsins hafi verið að prófa langdræga skotflaug (e. ballistic missile).

Skotið átti sér stað fáeinum vikum eftir að ríkið stóð fyrir kjarnorkuprófunum í fjórða skipti en báðar aðgerðirnar brjóta gegn sáttmálum Sameinuðu þjóðanna.

Fastafulltrúi Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, Samantha Power, sagði að Washington myndi tryggja að Öryggisráðið sæi til þess að skotið hefði alvarlegar afleiðingar fyrir stjórnvöld í Norður-Kóreu. Ekkert gæti fallið í sama farið.

Sömu hugmyndir voru uppi hjá sendifulltrúa Japans, Motohide Yoshikawa sem sagði nauðsynlegt að herða refsiaðgerðir.

„Þær refsiaðgerðir sem fyrir eru hafa ekki hindrað Norður-Kóreu í því að þróa kjarnavopn,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert