Nauðgari ekki sendur úr landi

Traiskirchen flóttamannamiðstöðin
Traiskirchen flóttamannamiðstöðin AFP

Hælisleitandi í Austurríki sem játaði á sig nauðgun á 72 ára konu verður ekki sendur úr landi að afplánun lokinni þar sem fangelsisdómur yfir honum er ekki lengri en þrjú ár. Þetta kemur fram á vef thelocal.

Maðurinn var 17 ára þegar hann nauðgaði konunni síðasta haust. Mál hans var því tekið fyrir af unglingadómstól þar sem hámarksrefsing er fimm ár.

Lögregla á svæðinu hefur viðurkennt að hafa ekki sagt opinberlega frá málinu þar sem það hafi verið talið viðkvæmt. Árásin átti sér stað við skurð nærri Traiskirchen-flóttamannamiðstöðinni þar sem hún var að viðra hundinn sinn. Konan sagði tvo unga karlmenn hafa verið að synda í skurðinum og annar þeirra hafi rétt henni hönd sín og beðið hana um að hjálpa sér upp á bakkann. Þá hafi þeir ráðist á hana.

Konan komst síðar heim af sjálfsdáðum en aðstandendur segjast sjá verulega á henni eftir atvikið, bæði líkamlega og andlega. „Hún er ekki sama konan lengur. Hún treystir sér ekki til þess að vera ein, fer ekki að heiman og er orðin mjög veikluleg síðan þetta gerðist,“ er haft eftir vini hennar.

Játaði eftir að erfðaefnisrannsókn sýndi fram á sekt

Hælisleitandinn, sem var nafngreindur sem Wahab M., neitaði sekt í fyrstu. Hann sagðist hafa verið drukkinn og ekki muna eftir atvikinu. Eftir að erfðaefnarannsókn tengdi hann við atvikið játaði hann hins vegar fyrir dómi, en lífsýni hafði verið tekið úr honum eftir að hann var handtekinn fyrir annan glæp. Þar sem hann hafði ekki áður verið sakfelldur og játaði sekt var dómurinn yfir honum styttur í 20 mánuði. Honum verður því ekki vísað úr landi að afplánun lokinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert