Snjóflóð féll á unga drengi

Frá vettvangi í Hammerfest.
Frá vettvangi í Hammerfest. Mynd/Jón Vigfús Guðjónsson

Þrír ungir drengir slösuðust þegar snjóflóð féll á þá í Hammerfest í Noregi síðdegis í dag. Drengirnir voru úti að leika sér á leiksvæð á bak við íbúðarblokk í bænum þegar snjóflóðið féll á þá. Tveir þeirra voru fluttir á spítala en sá þriðji var minna slasaður.

Björgunarsveitarmenn, fulltrúar Rauða krossins og fleiri viðbragðsaðilar leita nú í snjónum en óttast er að fleiri börn kunni að hafa lent undir flóðinu.

Flóðið var að sögn norskra fjölmiðla 70 sinnum 70 metrar að stærð. 

„Drengirnir þrír voru allir við meðvitund þegar þeir fundust,“ segir Kai Ruben Høgden sem stjórnar björgunaraðgerðum á svæðinu í samtali við NTB. Høgden segist ekki vita til þess að snjóflóð hafi fallið á þessum stað áður. Þyrlur björgunarsveitanna eru í viðbragðsstöðu á svæðinu.

Samkvæmt fyrstu fregnum af slysinu voru drengirnir tveir sem fluttir voru á spítala alvarlega slasaðir en nýjustu fregnir herma að þeir hafi aðeins hlotið minniháttar meiðsl.

„Snjóflóðið var ekki sérlega stórt í umfangi en það féll þó talsvert mikið magn af snjó,“ segir Christian Østnes sem starfar fyrir Rauða krossinn, í samtali við Verdens gang.

Frá vettvangi í Hammerfest.
Frá vettvangi í Hammerfest. Mynd/Jón Vigfús Guðjónsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert