Ungbarni bjargað en vonin fer þverrandi

Slökkviliðsmaður hvílir sig á vettvangi.
Slökkviliðsmaður hvílir sig á vettvangi. AFP

Sex mánaða gömlu ungbarni var í dag bjargað úr rústum íbúðarbyggingar í Taívan, 30 klukkustundum eftir að hún féll saman í jarðskjálfta.

Fyrr um daginn var tvítugur maður dreginn út á lífi en vonir um að þeir 120 sem talið er að enn séu fastir í rústunum náist út á lífi fara þverrandi.

Staðfest er að 26 hafi látist vegna jarðskjálftans sem var 6,4 að stærð og um 500 slasast. Flestir hinna látnu voru í 17 hæða byggingunni sem er í borginni Tainan. Um 200 manns hefur verið bjargað úr húsarústunum og taka hundruð hermanna þátt í björgunaraðgerðum auk þess sem skýli hafa verið sett upp fyrir þá sem hafa misst heimili sín.

260 manns bjuggu í íbúðarbyggingunni samkvæmt opinberum skrám en talið er að yfir 300 hafi verið í henni þegar húsið hrundi. Fjöldinn skýrist af því í byggingunni leigðu margir stúdentar herbergi og eru þeir ekki skráðir opinberlega auk þess sem margir gætu hafa verið með gesti í tilefni af hátíðarhöldum vegna kínverska nýársins.

Rescue workers look through the rubble of a collapsed building …
Rescue workers look through the rubble of a collapsed building in the southern Taiwanese city of Tainan on February 7, 2016, following a strong 6.4-magnitude earthquake that struck early on February 6. Rescuers raced on February 7 to free more than 120 people buried under the rubble of an apartment complex felled by an earthquake in southern Taiwan that left 24 confirmed dead, as an investigation began into the collapse. AFP PHOTO / ANTHONY WALLACE AFP

Örvænting og mikil reiði

BBC segir að meðal fjölskyldumeðlima sem enn bíða frétta af ástvinum sínum megi finna vaxandi örvæntingu auk þess sem mikillar reiði gætir.

Við jarðaskjálftann hafi nefnilega komið í ljós að steinsteypu stólpar byggingarinnar hafi verið fylltir af áldósum og frauðplasti en ófyrirleitin byggingarfyrirtæki noti stundum slík efni til að spara sér steinsteypu og minnka kostnað.

Borgarstjóri Tainan, William Lai, sagði í dag bæði ættingja og íbúa byggingarinnar hafa sett fram ásakanir um lögbrot en gaf engar frekari skýringar. Sagði hann saksóknara þegar hafa hafið rannsókn á málinu auk þess sem þrír óháðir rannsóknaraðilar hafi verið fengnir til að halda utan um sönnunargöng á meðan á björgunaraðgerðum stendur svo hægt verði að styðja við íbúa vilji þeir höfða mál í framtíðinni.

„Við munum draga byggingarverktakann til ábyrgðar ef hann hefur brotið lögin.“

Annars staðar í borginni létust í það minnsta tveir þegar brak féll á þá við jarðskjálftann.

Kona sem ræddi við BBC hjá rústum íbúðarbyggingarinnar sagði að sonur hennar væri látinn en að hún vonaðist enn til þess að tengdadóttir hennar og tvö barnabörn myndu finnast á lífi.

„Ég gef ekki upp vonina. Ég mun bíða hér þar til ég sé þau koma út örugg.“

Su Yi-ming, 48 ára sem bjó á sjöttu hæð byggingarinnar sagði við AFP að hann hefði bjargast eftir að hafa barið á fataskáp sem hann hefði fest undir.

„Ég barði í skápinn til að ná athygli björgunarmanna sem brutu gluggann til að komast að mér,“ sagði hann.

Önnur kona sagðist vera að bíða eftir því að heyra frá dóttur sinni sem bjó á fimmtu hæð. „Hún svarar ekki símtölum mínum. Ég er að reyna að halda í tilfinningar mínar og vera sterk. Ég geri það þar til ég finn hana,“ sagði hún.

„Ég veit að þeir munu finna hana, en ég þarf líka að vera búin undir það versta.“

Björgunarmenn færa fórnarlamb jarðskjálftans úr rústunum.
Björgunarmenn færa fórnarlamb jarðskjálftans úr rústunum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert