Afsprengi IRA eignaði sér morðið

Regency hótelið í Dublin þar sem árásin átti sér stað.
Regency hótelið í Dublin þar sem árásin átti sér stað. AFP

Samtök sem kalla sig Continuity IRA hafa lýst yfir ábyrgð á skotárás á vigtun fyrir boxbardaga í Dublin á föstudaginn. Einn lést og tveir særðust þegar sex árásarmenn réðust inn og hófu skothríð.

Maður sem sagðist talsmaður hópsins sendi yfirlýsingu þess efnis til BBC en fullyrðingar hans hafa ekki fengist fyllilega staðfestar. Hann sagði von á frekari árasum á „dópsala og glæpamenn,“ en samtökin „halda opnum hug varðandi þá glæpahópa sem þeir beita sér gegn“.

Tveir árásarmannanna á föstudag.
Tveir árásarmannanna á föstudag. Skjáskot af vef BBC

Hefnd fyrir morð á leiðtoga The Real IRA

Maðurinn sem lést hét David Byrne. Í tilkynningunni til BBC var hann sagður tengjast morði á Alan Ryan fyrir fjórum árum en Ryan var einn leiðtoga annars afsprengis IRA sem ekki hefur lagt niður vopn, The Real IRA. Á þeim tíma var fylking hans innan Real IRA sögð standa í hörðum átökum við stórtæka glæpamenn í undirheimum Dublin.

„Þó að hann hafi ekki verið meðlimur í samtökum okkar þá munum við ekki sitja hjá og leyfa dópsölum og glæpamönnum að gera lýðveldissinna að skotmörkum,“ sagði í tilkynningu Continuity IRA.

Gerry Adams
Gerry Adams Sinn Fein

Vopnaðar varðstöðvar í Dublin

An Garda Síochána, írska lögreglan, hefur sett upp vopnaðar varðstöðvar í Dublin af ótta við hefndaraðgerðir vegna árásarinnar. Hingað til hefur lögreglan þó sagst telja árásina tengjast uppgjöri milli glæpagengja.

Forseti Sinn Fein, Gerry Adams, sagði hópinn eiga heima í fangelsi. „Þetta var svívirðileg árás í fullu dagsljósi framkvæmd af glæpahrottum sem halda að þeir geti starfað af refsileysi ofan við lögin. Þeir eru ekki IRA. IRA eru farnir og vopnin þeirra sömuleiðis.

Sinn Fein var n.k. stjórnmálaarmur Írska lýðveldishersins þar til IRA lagði niður vopn sín.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert