Hlébarði gekk laus í skóla í 10 tíma

Hlébarðinn gekk laus í 10 tíma.
Hlébarðinn gekk laus í 10 tíma. AFP

Hlébarði særði sex manns þegar hann komst inn í skóla í indversku borginni Bangalore í gær. Dýrið gekk laust í skólanum í tæpa tíu tíma. Á endanum náðist að skjóta hann með deyfibyssu en honum var síðar sleppt.

Talið er að um 12.000 til 14.000 hlébarðar gangi villtir í Indlandi. Á upptökum öryggismyndavéla má sjá dýrið ráðast á fólk í skólanum sem reyndi að veiða hann.

Talið er að dýrið hafi komið úr skógi nálægt skólanum en það hefur verið flutt í þjóðgarð í nágrenninu. Allir þeir sem urðu fyrir barðinu á hlébarðanum eru á batavegi.

Hlébarðar og önnur kattadýr eiga það til að villast inn í bæi og borgir á Indlandi. Á síðasta ári festist karlkyns hlébarði með hausinn ofan í málmpotti í þorpi í héraðinu Rajsasthan.

Hægt er að sjá myndband af hlébarðanum í skólanum í frétt BBC. Það gæti þó vakið óhug. 

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert