Ítalir krefja Egypta um rannsókn

Líkhúsið í Kaíró sem lík Regeni var fært í eftir …
Líkhúsið í Kaíró sem lík Regeni var fært í eftir að það fannst í skurði við veg í Kaíró. AFP

Ítalski doktorsneminn Giulio Regeni fannst látinn á miðvikudag, meira en viku eftir að síðast sást til hans. Á líkama hans voru skýr merki um pyntingar en egypsk yfirvöld hafa gefið út misvísandi frásagnir af því hvernig andlát hans bar að.

Ítalir hafa m.a. kallað sendiherra Egypta í Róm á fund og krafist tafarlausrar fullnægjandi rannsóknar á málinu. Utanríkisráðherra Ítalíu segir „meintan sannleik“ Egypta hingað til ekki duga.

Regeni var í Egyptalandi að rannsaka vinnumarkað þar í landi en deilur verkalýðsfélaga og vinnuveitenda hafa orðið viðkvæmt málefni í Egyptalandi. Hann skrifaði einnig fréttir í ítalskt dagblað kommúnista, Il Manifesto. Hann var doktorsnemi við Cambridge háskóla.

Athöfn til heiðurs Regeni var haldin fyrir utan ítalska sendiráðið …
Athöfn til heiðurs Regeni var haldin fyrir utan ítalska sendiráðið í Kaíró. AFP

„Eitthvað ómennskt“

Haft var eftir réttarmeinafræðistofnun í Egyptalandi að Regeni hefði látist samstundis eftir högg í höfuðið með beittu áhaldi. Lík hans var flutt til Ítalíu þar sem önnur krufning fór fram og uppgötvuðust þá skýr merki um pyntingar. Marblettir, skurðir og brunasár voru um allan líkama Regeni og neglur hans höfðu verið rifnar af. Dagblaðið La Repubblica sagði þetta benda til þess að hann hafi verið handtekinn fyrir njósnir.

„Við komumst þá í augliti við eitthvað ómennskt, eitthvað dýrslegt,“ sagði Angelino Alfano, innanríkisráðherra Ítalíu. „Það var eins og hnefahögg í kviðinn og við höfum ekki náð andanum enn.“

Ítalska ríkisstjórnin hefur aukið þrýsting sinn á Egypta að framkvæma fullnægjandi rannsókn í samstarfi við ítölsk yfirvöld. „Koma verður upp um hina raunverulegu gerendur og refsa þeim í samræmi við lög,“ sagði utanríkisráðherra Ítalíu, Paolo Gentiloni, í viðtali við La Repubblica.

Magdy Abdel Ghaffar neitaði sögusögnum um þátt öryggissveita í morðinu …
Magdy Abdel Ghaffar neitaði sögusögnum um þátt öryggissveita í morðinu á blaðamannafundi. AFP

Lögreglan bendluð við morðið

Ýmsir hafa sakað lögregluna um tengsl við morðið á Regeni en mikil öryggisgæsla var á götum Kaíró þegar Regeni hvarf. Hinn 25. janúar voru fimm ár liðin frá upphafi uppreisnarinnar gegn Hosni Mubarak, fv. forseta. Síðast spurðist til Regeni um kl. 8 að kvöldi þess dags, þegar hann hélt á leið á Tarir torg að hitta vin sinn.

Mannréttindasamtök hafa ítrekað sakað lögregluna í Egyptalandi um að eiga þátt í mannshvörfum. Fólk sé handtekið án tilefnis og án þess að tilkynna um það, pyntað og sumt myrt.

Innanríkisráðherra Egyptalands, Magdi Abdel Ghaffar, sagði orðróm um slíkt óásættanlegan. „Orðrómar um að öryggissveitir hafi átt hlut í slysinu [dauða Regeni] hafa verið birtar endurtekið í dagblöðum. Þetta er óásættanlegt og samræmist ekki stefnu okkar.“ Hann sagði öryggisstofnarnir þar í landi „þekktar fyrir réttvisi sína og gegnsæi,“ og dauði Regeni hafi örugglega verið glæpur.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert