Ríkisstjórnin sökuð um „gjöreyðingu“

Frá höfuðborg Sýrlands, Damaskus.
Frá höfuðborg Sýrlands, Damaskus. AFP

Rannsakendur Sameinuðu þjóðanna saka stjórnvöld í Damaskus um „gjöreyðingu“ í fangelsum og gæslumiðstöðum sínum. Segja þau fanga hafa verið tekna af lífi, þeir pyntaðir til dauða eða haldið í slíkum aðstæðum að þeir hafi farist.

Á undanförnum tæpum fimm árum hafa fangar verið drepnir í þúsundatali beggja vegna víglínanna sem dregnar hafa verið í hinni hrottalegu borgarastyrjöld. Kemur þetta fram í skýrslu SÞ sem gefin var út í dag.

Ríkisstjórnin gerst sek um stríðsglæpi

Í skýrslunni er varpað ljósi á slæmar aðstæður fanga sem eru í haldi stjórnvalda í Sýrlandi.

„Það er ljóst að fangelsismálayfirvöld voru meðvituð um að fólk væri að láta lífið í gríðarmiklum mæli,“ segir í skýrslunni. Þá eru þau sökuð um að hafa framið „gjöreyðingu sem glæp gegn mannkyninu“.

Að sögn rannsakenda hefur ríkisstjórnin einnig gerst sek um fjölda annarra stríðsglæpa og glæpa gegn mannkyninu, þar á meðal morð, nauðganir, pyntingar og þvingað hvarf einstaklinga.

Bashar Al-Assad forseti Sýrlands gengur hjá heiðursverði sínum.
Bashar Al-Assad forseti Sýrlands gengur hjá heiðursverði sínum.

Skýrslan byggð á viðtölum fanga

Skýrslan er byggð á 621 viðtali en viðmælendur voru rúmlega 200 fyrrum fangar, sem allir urðu vitni að einu eða fleiri dauðsföllum á meðan þeir voru í haldi.

„Næstum allir þeir sem lifað hafa af fangavistina koma þaðan hafandi þurft að þola óhugsandi misþyrmingar,“ segir formaður rannsóknarnefndarinnar, Paulo Pinheiro, í yfirlýsingu.

Eftirlifendur lýsa því hvernig klefafélagar þeirra voru barðir til dauða í yfirheyrslum eða í klefum sínum, skildir eftir til að deyja vegna áverka af völdum pyntinga eða vegna heilsufarsástæðna sem ekki var hugað að.

Enn aðrir létust vegna „ómannlegra lifnaðaraðstæðna“, meðal annars vegna yfirfylltra og óþrifinna klefa eða skorts á vatni og fæðu. Margir hafa þannig neyðst til að nota klósett sitt til að útvega drykkjarvatn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert