Vilja fjármálaráðuneyti fyrir evrusvæðið

AFP

Koma þarf á auknum stofnanalegum umbótum og samruna á evrusvæðinu. Meðal annars þarf að stofna sérstakt fjármálaráðuneyti fyrir svæðið. Þetta segja bankastjórar seðlabanka Þýskalands og Frakklands í aðsendri grein í þýska dagblaðinu Süddeutsche Zeitung í dag.

Fram kemur í grein bankastjóranna Jens Weidmann og Francois Villeroy de Galhau að peningastefna Evrópska seðlabankans geti ekki stuðlað að sjálfbærum hagvexti til lengri tíma á evrusvæðinu samkvæmt frétt Reuters. Núverandi ójafnvægi á milli einstakra evruríkja skapaði hættur fyrir stöðugleika svæðisins. Meiri samruni væri augljós leið til þess að endurheimta traust á evrusvæðinu enda myndi það stuðla að aukinni samræmingu fjármála ríkjanna.

Þá leggi þeir Weidmann og Villeroy de Galhau sérstaka áherslu á að sameiginlegt fjármálaráðuneyti verði sett á laggirnar í tengslum við sjálfstætt efnahagsráð auk öflugri pólitískrar stofnunar sem hafi völd til þess að taka ákvarðanir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert