Bitist um atkvæði íbúa New Hampshire

Lífið í New Hampshire mun að mestu snúast um komandi forsetakosningar þar sem bæði demókratar og repúblikanar eru með forvalsatkvæðagreiðslu í ríkinu í dag.

Um er að ræða annað ríkið þar sem forval flokkanna fer fram að þessu sinni en í Iowa var það Ted Cruz sem fór með sigur af hólmi hjá repúblikönum en Hillary Clinton hjá demókrötum.

Donald Trump hafnaði í öðru sæti hjá repúblikönum í Iowa þrátt fyrir að hafa notið mestra vinsæla í skoðanakönnunum og vonast hann til þess að fá fleiri atkvæði en Cruz í New Hampshier.

Hjá demókrötum stendur baráttan á milli Clinton og Bernie Sanders.

Í smábænum Dixville Notch voru það Bernie Sanders og John Kasich sem fóru með sigur af hólmi en Kasich hefur ekki verið spáð mikilli velgengni meðal kjósenda repúblikana.

Samkvæmt ríkislögum New Hampshire mega bæir með 100 íbúa eða færri hefja atkvæðagreiðslu strax á miðnætti og svo er kjörstöðum lokað þegar allir hafa greitt atkvæði.

Það tók íbúa Dixville Notch stuttan tíma að ljúka atkvæðagreiðslu. En þar kusu fjórir demókratar Sanders á meðan tveir repúblikanar greiddu Donald Trump atkvæði sitt en þrír  John Kasich ríkisstjóra Ohio.

Alls eru íbúar New Hampshire 1,3 milljónir talsins og er talið að atkvæðagreiðslan þar geti skýrt línur í forvali repúblikana. Þar eru þrír frambjóðendur líklegastir til landvinninga, Trump, Cruz og Marco Rubio. En þeir þrír skipuðu þrjú efstu sætin í forvalinu í Iowa í síðustu viku.

Aftur á móti eru mjög margir íbúar New Hampshire óflokksbundnir, 30%, og geta þeir valið hvort þeir tekið þátt í forvali demókrata eða repúblikana. Óvíst er hins vegar hversu margir mæta á kjörstaði í dag því það snjóaði talsvert í gærkvöldi og víða slæm færð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert