Ekkjan ákærð vegna dauða gíslsins

Kayla Mueller
Kayla Mueller AFP

Ekkja eins af yfirmönnum hryðjuverkasamtakanna Ríki íslams hefur verið ákærð fyrir samsæri sem varð bandarískum hjálparstarfsmanni að bana fyrir ári síðan.

Kayla Mueller hafði aðeins verið í Sýrlandi í einn dag árið 2013 þegar henni var rænt í Aleppo og lést hún í haldi Ríkis íslams í febrúar í fyrra.

Konan sem er ákærð, Nisreen Assad Ibrahim Bahar er 25 ára gömul og þekkt undir heitinu  Umm Sayyaf, er í haldi yfirvalda í Írak. Að sögn saksóknara var það Sayyaf sem hélt Mueller fanginni og var Mueller ítrekað nauðgað af leiðtoga Ríkis íslams, Abu Bakr al-Baghdadi, þegar hún var í haldi Sayyaf. 

Eiginmaður Nisreen Bahar's, Abu Sayyaf, var olíumálaráðherra Ríkis íslams og heyrði beint undir Baghdadi. Abu Sayyaf lést í maí í fyrra þegar bandarískar hersveitir gerðu loftárárásir á búðir þar þar sem hann hélt til í Sýrlandi. Ekkjan var framseld til Íraks þar sem henni verður gert að svara til saka.

Samkvæmt frétt BBC styður bandaríska dómsmálaráðuneytið saksóknina en í tilkynningu kemur fram að áfram verði reynt að ná fram réttlætinu fyrir Kayla. Hvergi verði slakað á í leitinni að þeim sem ræna og myrða bandaríska gísla.

Kayla Jean Mueller.
Kayla Jean Mueller. Skjáskot af Sky


Staðfest var fyrir ári að Kayla Mueller, 26 ára bandarískur hjálparstarfsmaður, væri látin en hún var í haldi Ríki íslams í Sýrlandi í átján mánuði.

Að sögn fjölskyldu hennar fór hún að landamærum Tyrklands og Sýrlands árið 2012 til þess að starfa með dönskum hjálparsamtökum í flóttamannabúðum. Þann 4. ágúst 2013 var henni rænt af liðsmönnum Ríki íslams í borginni Aleppo en þar hafði hún heimsótt sjúkrahús sem samtökin Læknar án landamæra reka.

Mueller nam við Northern Arizona háskólann í  Flagstaff og á meðan hún var í námi starfaði hún með hjálparsamtökunum Save Darfur Coalition. Hún tók þátt í mótmælum á vegum samtakanna og eins sendi hún bréf til þingmanna þar sem hún hvatti þá til þess að grípa til aðgerða vegna ástandsins í Darfur héraði.

Á minningarsíðu sem sett var upp eftir andlát hennar kemur fram að Kayla, sem fæddist árið 1988, ólst upp í bænum Prescott, Arizona ásamt foreldrum og eldri bróður. Hún var mikið fyrir útivist og vissi fátt skemmtilegra en að fara í tjaldútilegur upp í fjöllin.

Eftir útskrift árið 2011 starfaði hún með hjálparsamtökum á Norður-Indlandi, Ísrael og Palestínu. Þegar hún snéri aftur heim til Arizona starfaði hún á læknastöð fyrir HIV-smitaða auk þess sem hún var sjálfboðaliði í kvennaathvarfi á næturnar.

Í desember 2011 fór hún til Frakklands þar sem hún var au pair. Ástæðan fyrir því vali var löngun hennar til að læra frönsku til þess að undirbúa sig undir að starfa í Afríku. Það var hins vegar í Frakklandi árið 2012 sem hún tók ákvörðun um að fara til Sýrlands og aðstoða þá sem höfðu hrakist á flótta undan borgarastríðinu þar í landi.

Nauðgaði bandarískum gísl

Hefði ef til vill verið látin laus

Hvar er heimurinn?

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert