Greiddu skaðabætur og ganga frjálsir

Stúlkunni var nauðgað á skemmtistað í Split.
Stúlkunni var nauðgað á skemmtistað í Split. Af Wikipedia

Þrír ástralskir menn sem játuðu að hafa nauðgað sautján ára gamalli stúlku í Króatíu eru komnir aftur til síns heima eftir að þeir greiddu stúlkunni 20.000 evrur eða 2,8 milljónir íslenskra króna í bætur. Með því sluppu mennirnir við réttarhöld.

Dylan Djohan, Ashwin Kumar og Waleed Latif eru á aldrinum 21 til 23 ára og eru allir frá Melbourne. Þeir greiddu stúlkunni og voru dæmdir í eins árs fangelsi. Sá dómur var þó mildaður í fimm ára skilorðsbundið fangelsi samkvæmt frétt The Independent.

Mennirnir voru handteknir í júlí á síðasta ári og voru vegabréf þeirra gerð upptæk. Málið var þingfest í desember og var því lýst hvernig mennirnir neyddu stúlkuna, sem er frá Noregi, inn á klósett skemmtistaðar þar sem árásin fór fram. Stúlkan slapp og tilkynnti árásina til lögreglu.

DNA úr öllum mönnunum þremur fannst á klæðnaði stúlkunnar en samkvæmt læknisskýrslu fór samræði fram. Tveir þeirra héldu því fyrst fram að um kynlíf með samþykki hafi verið að ræða. Sá þriðji neitaði aðild að árásinni.

Stúlkan hafði verið að drekka með mönnunum áður en þeir réðust á hana en vitnisburðir flestra sem voru á staðnum studdu yfirlýsingar mannanna.

Mennirnir þrír voru hluti stórum hó pi sem var staddur í Króatíu til þess að fara á tónlistarhátíð í júlí á síðasta ári en nauðgunin átti sér stað á skemmtistað í borginni Split. Að sögn saksóknara skipulögðu mennirnir nauðgunina áður en einn þeirra dró hana inn á klósett. Hinir tveir fylgdu eftir.

Réttarhöldin yfir mönnunum áttu að hefjast 1. febrúar og beið þeirra allt að fimmtán ára fangelsisdómur hefðu þeir verið dæmdir sekir. Lögmenn mannanna gátu samið um skaðabætur til stúlkunnar áður en réttarhöldin áttu að hefjast.

Króatíska kvenréttindakonan Sanja Sarnavka hefur varið ákvörðun stúlkunnar um að þiggja skaðabæturnar í stað þess að réttað verði yfir mönnunum. Að mati Sarnavka sleppur stúlkan m.a. við það að að endurupplifa árásina. Hún gagnrýndi þó ríkissaksóknara fyrir að leyfa sáttagerð í tengslum við glæp af þessu eðli.

„Ef þeir eiga fyrir því, geta þeir sem eru ákærðir um glæpi sem þessa, borgað bestu lögfræðingunum, borgað skaðabætur og fengið lágmarksrefsingu eða jafnvel fengið frelsi. Í lýðræðisríki ættu allir að fá sömu meðferð, sama hversu ríkir þeir eru,“ sagði Sarnavka í samtali við króatíska miðla.

Frétt The Sydney Morning Herald. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert