Hafa náð yfirráðum í Ramadi að fullu

Íraskir hermenn fagna sigri.
Íraskir hermenn fagna sigri. AFP

Íraksher hefur nú náð yfirráðum að fullu í kringum borgina Ramadi sem var áður undir stjórn hryðjuverkasamtakanna Ríki íslams. Þá hefur vegur sem tengir Ramadi og höfuðborgina Bagdad, verið opnaður að nýju.

Seint í desember tilkynnti Íraksstjórn að herinn hafi náð yfirráðum í Ramadi eftir átök sem stóðu yfir í rúman mánuð í austurhluta borgarinnar. Nú hefur herinn náð að „frelsa svæði austan við Ramadi“ eins og Sichariya, Juwaiba og Husaiba.

Ríki íslams náði yfirráðum yfir stórum svæðum í Írak í júní árið 2014 en hermenn Írakshers og bandamenn þeirra náðu að halda Ramadi frá hryðjuverkamönnunum þar til í maí 2015. Er það síðasta stórsókn Ríkis íslams í Írak en yfirráðasvæði þeirra hefur farið minnkandi síðustu misseri.

Hryðjuverkasamtökin eru þó enn með yfirráð í borginni Fallujah, austan við Ramadi og Mosul sem er næststærsta borg Íraks.

Þúsundir hermanna eru nú á leið til svæðis suðaustan við Mosul til þess að hefja aðgerðir til þess að taka úr umferð birgðaleiðir hryðjuverkamannanna. Er það hluti af áætlun hersins til að ná borginni aftur á sitt vald.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert