Kveikti í sér við Kensington-höll

Starfsmenn réttarmeinadeildar ganga framhjá tjaldi sem reist var við staðinn …
Starfsmenn réttarmeinadeildar ganga framhjá tjaldi sem reist var við staðinn þar sem maðurinn fannst í ljósum logum. Hann var skömmu síðar úrskurðaður látinn. AFP

Karlmaður kveikti í sér í nótt fyrir utan Kensington-höll, heimili Vilhjálms Bretaprins og eiginkonu hans Katrínar í Lundúnum. Maðurinn lést síðar af sárum sínum, að sögn bresku lögreglunnar.

Tvö slökkvitæki sáust við hliðina á lögreglutjaldi sem hafði verið sett upp þar sem atvikið gerðist. Einnig sást grænn bensínbrúsi á svæðinu og talið er líklegt að maðurinn hafi hellt honum yfir sig áður en hann kveikti í sér.

„Atvikið er ekki talið tengjast hryðjuverkum,“ sagði lögreglan í yfirlýsingu.

Lögregluþjónar voru kallaðir á vettvang um klukkan þrjú í nótt eftir að fregnir bárust af manni sem væri að hegða sér undarlega. Þegar þangað var komið sáu þeir manninn í ljósum logum. Hann var á fertugsaldri.

Vilhjálmur, Katrín og börnin þeirra fyrir utan Kensington-höll á síðasta …
Vilhjálmur, Katrín og börnin þeirra fyrir utan Kensington-höll á síðasta ári. AFP

Að sögn bresku lögreglunnar hvarf karlmaður af sjúkrahúsi í London nokkrum klukkustundum áður. Hann var á sama aldri og sá sem kveikti í sér en ekki er vitað hvort um sama mann var að ræða.

Vilhjálmur, Katrín og börnin þeirra tvö voru ekki í Kensington-höll þegar atburðurinn átti sér stað. Þau eyða flestum sínum stundum í Anmer Hall, sveitasetri í Norfolk í austurhluta Englands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert