Lentu líklega saman á fullum hraða

Önnur lestin „boraði“ sig inn í hina, að sögn samgönguráðherrans.
Önnur lestin „boraði“ sig inn í hina, að sögn samgönguráðherrans. AFP

Björgunarmenn á vettvangi í Bad Aibling í Þýskalandi, þar sem tvær farþegalestar lentu í árekstri í morgun, hafa fundið tvö svokölluð „svört box“ sem talin eru getað varpa ljósi á orsök slyssins. Þriðja lestarritans er leitað.

Níu eru látnir og fjöldi slasaður. 18 eru sagðir í lífshættu. Samgöngumálaráðherrann Alexander Dobrindt, sem heimsótti vettvang fyrr í dag, sagði á blaðamannafundi að aðkoman hefði verið hræðileg.

Frétt mbl.is: Merkel skelfingu lostin

„Það var sláandi að sjá hvernig báðar lestar höfðu skollið hvor á annarri. Önnur lestin hafði borað sig inn í hina.“

Slysið átti sér stað í Bad Aibling í suðurhluta Þýskalands.
Slysið átti sér stað í Bad Aibling í suðurhluta Þýskalands. Kort/Google Maps

Dobrindt sagði að lestarnar hlytu að hafa verið á mjög miklum hraða, en slysið átti sér stað í beygju og telja rannsakendur að hvorugur lestarstjóri hafi séð hinn og hvorugur því hemlað. Báðir létust í slysinu.

Rannsóknin mun m.a. beinast að því hvort að merkjakerfi lestanna virkaði, en því er ætlað að koma í veg fyrir slys sem þetta og á að gefa viðvörunarmerki og hemla ef tvær lestar eru á sömu teinum á sama svæði. Kerfið var tekið í notkun í kjölfar slyss í Saxony Anhalt í janúar 2011, þar sem tíu létust.

Frétt mbl.is: Átta látnir og yfir 100 slasaðir

Umræddar lestar voru á leið frá Holzkirchen annars vegar og Rosenheim hinsvegar og áttu að vera á sama tíma í Kolbermoor. Sú áætlun stóðst ekki, en hvers vegna liggur ekki fyrir.

150 voru um borð í lestunum þegar slysið átti sér stað.

Átján eru í lífshættu eftir slysið.
Átján eru í lífshættu eftir slysið. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert