Sex börn létust í bílslysi

Sex frönsk skólabörn létust í bílslysi í vesturhluta Frakklands í morgun. Þetta er annað banaslysið í umferðinni á aðeins tveimur dögum sem skólabílar eiga í hlut.

Slysið varð í Charente-Maritime sýslu um 7:15 að staðartíma. Alls voru 17 í skólabílnum sem lenti í árekstri við flutningabíl skammt frá Rochefort.

Þrjú skólabörn slösuðust einnig í slysinu en í gær létust tvö skólabörn, 12 og 15 ára, þegar skólabíll þeirra fór út af veginum í Austur-Frakklandi. Slysið þar var rekið til snjókomu og hálku. Í þeim skólabíl voru 32 börn sem voru á leiðinni í skólann í Montbenoit.

Fréttir franskra fjölmiðla herma að hjálparmiðstöð hafi verið sett upp og að menntamálaráðherrann, Najat Vallaud Belkacem, sé á leiðinni á slysstað.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert