Smyglararnir dregnir fyrir dóm

Aylan drukknaði ásamt bróður og móður er fjölskyldan reyndi að …
Aylan drukknaði ásamt bróður og móður er fjölskyldan reyndi að komast frá Tyrklandi til Kos AFP

Réttarhöld yfir tveimur Sýrlendingum hófust í Tyrklandi í morgun en þeir eru sóttir til saka fyrir smygl á flóttafólki yfir Eyjahaf. Meðal fórnarlamba þeirra er Aylan Kurdi en mynd af líki hans á tyrkneskri strönd snart hjörtu fólks út um allan heim í september.

Réttarhöldin yfir Muwafaka Alabash og Asem Alfrhad fara fram í bænum Bodrum, en líki Aylans skolaði á land þar. Þeir eiga yfir höfðu sér allt að 35 ára fangelsi verði þeir fundnir sekir.

Samkvæmt ákæru eru þeir sakaðir um að smygla flóttafólki og að bera ábyrgð á dauða fimm manns, þar á meðal Aylan Kurdi þriggja ára, fimm ára gömlum bróður hans, Galip og móður þeirra, Rihan.

Fórnarlömbin eru meðal um það bil milljón flóttamanna sem reyndu að komast yfir Eyjahaf frá Tyrklandi til Grikklands.

Fleiri þúsund hafa hins vegar farist á flóttanum enda bátarnir vanbúnir og björgunarvesti af skornum skammti. Ljósmyndin af Aylan Kurdi þar sem hann lá með andlitið á grúfu á sandströndinni snerti flesta djúpt og breytti allri umræðu um flóttamannastrauminn til Evrópu. 

Samkvæmt frétt tyrknesku fréttastofunnar Dogan er faðir drengjanna, Abdullah Kurdi, ekki viðstaddur réttarhöldin en hann er einnig ákærður fyrir aðild að slysinu. Ekki kemur hins vegar fram hver hann hlutur er. Abdullah Kurdi er frá sýrlenska bænum Kobane þar sem flestir íbúanna eru Kúrdar. Talið er að hann sé ekki staddur í Tyrklandi. Dogan segir að smyglararnir hafi báðir verið í réttarsalnum í morgun en þeir sitja báðir í gæsluvarðhaldi.

Atlantshafsbandalagið hefur lýst því yfir að bandalagið sé reiðubúið til að taka þátt í eftirliti Þjóðverja, Grikkja og Tyrkja á Eyjahafi með smyglurum. Ríkin þrjú hafa öll komið að máli við NATO og óskað eftir aðstoð við eftirlitið og að grípa verði til aðgerða strax. Líf séu í hættu og NATO taki undir það og muni veita aðstoð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert