Átti að fremja sjálfsvígsárás en náði að flýja

Unglingsstúlka sem var í haldi Boko Haram hryðjuverkasamtakanna og átti að fremja sjálfsvígsárás í flóttamannabúðum í Nígeríu náði að flýja af vettvangi en einn þeirra sem var í búðunum er faðir hennar.

Tvær aðrar stúlkur sem áttu einnig að taka þátt í árásinni luku ætlunarverkinu, fóru klæddar sjálfsvígsbeltum inn í hóp fólks í Dikwa flóttamannabúðunum og sprengdu sig upp. 58 létust í árásinni.

Hermenn fundu stúlkuna nokkru síðar þar sem hún sagði þeim grátandi frá því hvað henni hafi verið ætlað að gera. Hún er ein af örfáum börnum sem Boko Haram hryðjuverkasamtökin nota í voðaverk sín sem gera sér grein fyrir því að hún hafi átt að deyja sjálf og deyða aðra.

Einn þeirra sem ræddu við stúlkuna, Modu Awami, segir í samtali við Guardian að stúlkan hafi sagt þeim að hún hafi verið hrædd þar sem hún vissi að hún myndi drepa fólk. En hún sagði jafnframt að hún þyrði ekki að fara gegn vilja mannanna sem fóru með hana í búðirnar.

Stúlkan er ein þeirra þúsunda sem eru í haldi Boko Haram í Nígeríu. Á sex árum hafa samtökin drepið 20 þúsund manns og sent 2,5 milljón manna á vergang.

Í frétt Guardian kemur fram að hún hafi reynt að fá hinar stúlkurnar til þess að hætta við árásina og flýja með sér án árangurs. Eftir að hermennirnir fundu hana sýndi hún þeim hvar vestið, sem var ósprungið, væri að finna.

Alls eru 50 þúsund manns í flóttamannabúðunum en allt fólkið þar er að flýja undan ofríki Boko Haram.

Frétt Guardian í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert