Facebook fyrir rétt í Frakklandi

AFP

Facebook þarf að svara fyrir meinta ritskoðun sína fyrir dómi í Frakklandi eftir að áfrýjunardómstóll þar í landi staðfesti í gær dóm þess efnis að notendur Facebook geti lögsótt fyrirtækið í Frakklandi, en ekki einungis í Kaliforníu líkt og notendaskilmálar síðunnar kveða á um.

Frederic Durand-Baissas kærði Facebook eftir að það eyddi mynd sem hann setti inn á síðuna af málverki af nöktum líkama konu, eftir Gustave Courbet. Hann krefur Facebook um €20.000 evrur í skaðabætur fyrir þetta meinta brot samfélagsmiðilsins.

Hæstiréttur Parísar hafði áður sagt lögsóknina réttmæta þar sem notendaskilmálarnir væru ósanngjarnir og gerðu notendum óeðlilega erfitt fyrir að leita réttar síns.

Litið er á málið sem prófmál fyrir Facebook og fleiri netsíður sem nýta sér samskonar skilmála. Lögmaður Durand-Baissas sagði eftir dóminn að netrisar verði hér eftir að virða frönsk lög. „Þessi dómur er fullveldisgjörningur af hálfu franskra dómstóla sem gefa hér til kynna að Facebook, og aðrir risar á netinu, verða að virða frönsk lög.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert