Tókust á um kynþáttamál og Kissinger

Frambjóðendurnir tókust á í borginni Milwaukee í Wisconsin.
Frambjóðendurnir tókust á í borginni Milwaukee í Wisconsin. AFP

Hillary Clinton og Bernie Sanders reyndu leynt og ljóst að afla atkvæða þeldökkra og fólks af rómönskum uppruna í kappræðum demókrata sem fram fóru vestanhafs í gærkvöldi. 

Ljóst var að í brennidepli voru ójafnrétti kynþátta í réttarkerfinu og aðstæður innflytjendafjölskyldna sem til landsins koma en þessi mál brenna á mörgum kjósendum í Suður-Karólínu og Nevada, þar sem næst verður kosið í forvali flokksins.

Íbúar ríkjanna tveggja eru mun fjölbreyttari að uppruna og litarhafti heldur en þeir sem búa í Iowa og New Hampshire, þeim tveimur ríkjum sem lokið hafa forvali sínu, þar sem búa nær eingöngu hvítir í samanburði við flest ríki Bandaríkjanna.

Ósigurinn fékk lítið á Clinton

Sá mikli ósigur sem Clinton beið í New Hampshire á þriðjudag virtist lítið fá á hana. Var hún snögg að koma Sanders í varnarstöðu þegar hún bar á borð efasemdir sínar um tillögur hans um endurbætur á heilbrigðis- og skattakerfinu.

Hann gagnrýndi enn á ný dómgreind hennar í utanríkismálum og reyndi að koma höggi á hana með því að varpa ljósi á tengsl hennar við fjársterka styrktaraðila. Kappræðurnar, sem voru þær sjöttu í röðinni hjá demókrötum, snerust þó á endanum um málefni kynþátta vegna eðlis þeirra ríkja þar sem baráttan er nú háð.

„Ég vil takast á við þær hindranir sem standa í vegi of margra Bandaríkjamanna núna,“ sagði Clinton í opnunarræðu sinni.

Lofuðu miklum endurbótum

Báðir frambjóðendur lofuðu miklum endurbótum á réttarkerfinu og málefnum innflytjenda, þar á meðal að auðvelda þeim 11 milljón innflytjendum sem lifa og vinna ólöglega í Bandaríkjunum að útvega sér bandarískan ríkisborgararétt.

Þá sakaði Clinton Sanders um að hafa árið 2007 kosið gegn frumvarpi um endurbætur á lögum um innflytjendur, sem hefði auðveldað þeim leiðina að ríkisborgararétti. Sanders varði ákvörðun sína og sagði mörg mannréttindasamtök og samtök um málefni innflytjenda einnig hafa verið andstæð frumvarpinu. 

„Ég biðst ekki afsökunar á því atkvæði,“ sagði Sanders. Þá lýsti hann furðu sinni á þeirri skoðun Clintons að börn sem væru að flýja ofbeldi og fátækt í Mið-Ameríku ættu að vera send aftur til síns heima til að senda viss skilaboð. „Hverjum ertu að senda skilaboð?“ spurði Sanders.

Sanders hélt sig við handritið

Annars hélt Sanders sig að mestu við handrit sitt jafnvel þegar spurningarnar lutu ekki beint að efni þess, sem snýst helst um að banna fjárveitingar fyrirtækja til frambjóðenda, fría menntun og endurbætur á réttarkerfinu.

„Framboð mitt snýst ekki aðeins um að kjósa þann sem hefur framsæknustu stefnuna heldur snýst það einnig um að koma tugmilljónum manna til að standa saman um þá kröfu að ríkisstjórnin vinni fyrir okkur öll en ekki bara hið eina prósent, sem í dag hefur svo mikil völd,“ sagði Sanders í lokaorðum sínum. Honum er tíðrætt um „hið eina prósent“ og á þar við það eitt prósent Bandaríkjamanna sem fjársterkast er.

Kissinger óvænt að umtalsefni

Sá kafli kappræðanna sem laut að utanríkisstefnu frambjóðendanna tók óvænta beygju inn á braut sagnfræðinnar þar sem Sanders fordæmdi Henry Kissinger, sem var utanríkisráðherra í tíð forsetanna Nixons og Ford. Gagnrýndi hann Clinton fyrir að hafa viðurkennt að hafa snúið sér að hinum 92 ára gamla forvera sínum til að fá hjá honum ráð þegar hún gegndi sama starfi.

Kallaði Sanders Kissinger „einn eyðileggingarmesta utanríkisráðherra þessa lands á síðari tímum [...] Henry Kissinger er ekki vinur minn.“

Clinton skaut þá til baka og krafði Sanders um svör. „Hvern hlustar þú á þegar kemur að utanríkisstefnu? Við höfum enn ekki fengið að vita hver það er.“

Sanders svaraði ókeikur um hæl: „Að minnsta kosti ekki Henry Kissinger!“

Umfjöllun The Guardian um kappræðurnar.

Sigurinn virtist lítið hafa fengið á Hillary Clinton.
Sigurinn virtist lítið hafa fengið á Hillary Clinton. AFP
Bernie Sanders hélt sig að mestu við handritið í gærkvöldi.
Bernie Sanders hélt sig að mestu við handritið í gærkvöldi. AFP
Henry Kissinger, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Henry Kissinger, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Myndasafn Morgunblaðsins/Ólafur K. Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert