Nýtt kalt stríð afleiðing deilna

Dmitry Medvedev, forsætisráðherra Rússlands, á öryggisráðstefnunni fyrr í dag.
Dmitry Medvedev, forsætisráðherra Rússlands, á öryggisráðstefnunni fyrr í dag. AFP

Langvinnar deilur Vesturlanda og Rússa vegna Úkraínu og Sýrlands hafa leitt af sér „nýtt kalt stríð“ að sögn Dmitry Medvedev, forsætisráðherra Rússlands. Þetta kom fram í máli hans á öryggisráðstefnunni Munich Security Conference sem fram fer í Munchen í dag. 

Í erindi sínu gagnrýndi Medvedev stefnu Evrópusambandsins og NATO, í því að koma upp „belti bandamanna“ á útjaðri Evrópu, í löndum sem tilheyrðu Sovétríkjunum fyrrverandi. Sagði hann ætlunarverkið hafa verið að tryggja öryggi en niðurstaðan hafi orðið önnur, „ekki belti bandamanna, heldur belti útilokunar.“

Sitja undir ásökunum um hræðilega hluti hvern einasta dag

Medvedev sagði Rússa þurfa að sitja undir ásökunum hvern einasta dag um að hafa gerst sekir um „hræðilega hluti“ gegn NATO í heild, Evrópu, Bandaríkjunum eða öðrum ríkjum. „Allt sem er eftir er óvinsamleg stefna NATO gagnvart Rússlandi,“ sagði hann á ráðstefnunni.

Medvedev sagði það erfitt að skapa traust, en einhversstaðar þurfi að byrja. „Staðan okkar er ólík, en ekki eins ólík og fyrir 40 árum þegar það stóð múr í Evrópu."

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, var meðal ræðumanna á ráðstefnunni. Sagði hann NATO forðast hvers konar átök í lengstu lög og vilji ekki hleypa af stað nýju köldu stríði. Hvatti hann til betra samstarfs við Rússa til þess að styrkja samband Vesturlanda og Rússlands.

„Ég trúi því staðfastlega að svarið liggi bæði í auknum vörnum og frekari viðræðna,“ sagði Stoltenberg.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO.
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert