Mesti fjöldi dauðsfalla síðan 2009

Fjöldi almennra borgara sem drepnir voru eða særðust í Afganistan á síðasta ári var sá mesti síðan árið 2009. Þetta segir ný skýrsla Sameinuðu þjóðanna þar sem fram kemur að börn hafi einkum þurft að gjalda fyrir átökin í landinu.

Alls særðust 11.002 borgarar árið 2015 en þar af létust 3.545, sem er 4% aukning frá árinu 2014.

„Þjáningarnar sem borgarar þurfa að þola eru algjörlega óásættanlegar,“ segir Nicholas Grayson, sérstakur fulltrúi SÞ í Afganistan. „Við köllum eftir því að þeir sem eru að valda þessum þjáningum grípi til áþreifanlegra aðgerða til verndar borgurunum og bindi enda á dráp og limlestingar.“

Afganska herliðið gagnrýnt

Átök og árásir í fjölmennum byggðum og borgum munu vera helsta ástæða dauðsfallanna á liðnu ári. Talíbanar hafa enda verið að herja í auknum mæli á byggðir „þar sem miklar líkur eru á því að borgarar hljóti af skaða,“ segir í skýrslunni.

En þar kemur einnig fram að líkamsmeiðsl af völdum herliðs ríkisstjórnarinnar og alþjóðlegra herliða hafa aukist um 28% frá árinu 2014. Sautján prósent allra limlestinga eða dauðsfalla mátti þannig rekja til þeirra. Í skýrslunni er afganska herliðið gagnrýnt sérstaklega fyrir mikla notkun sprengiefna í byggð.

Herlið Bandaríkjanna og annarra þjóða hættu þátttöku í bardögum í ársbyrjun 2015 og eiga nú að gegna hlutverki við þjálfun, aðstoð og ráðgjöf fyrir her ríkisstjórnarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert