Boris mótfallinn hugmyndum Cameron

Boris Johnson, borgarstjóri London, segist styðja útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Er ákvörðun hans talin vera stórt högg fyrir David Cameron, forsætisráðherra og samflokksmann Johnson í Íhaldsflokknum. Sagði Johnson í dag að eftir mikla umhugsun myndi hann mæla með að fólki kysi um að yfirgefa sambandið. 

Johnson er vinsæll stjórnmálamaður og einn sá þekktasti í Bretlandi. Hefur ærslafullt far hans, mikið ljóst hár og hnittin svör hafa gert hann vinsælan hjá  stuðningsmönnum Íhaldsflokksins sem og Verkamannaflokksins.

Johnson sagði Cameron hafa staðið sig mjög vel í samningaviðræðunum við leiðtoga Evrópusambandsins í fundarlotunni í vikunni sem er að líða, en að enginn gæti í raun sagt að þessar breytingar myndu hafa grundvallarbreytingar á samskipti ríkjanna eins og hugmyndin var upphaflega. Cameron sagði eftir fundinn að hann teldi Bretland eiga að vera áfram í sambandinu.

Meðal þess sem Johnson gagnrýndi var að völd Evrópudómstólsins væru „komin úr böndunum,“ og þá sagði hann að Bretland þyrfti að leitast eftir nýju sambandi við Evrópusambandið byggt á viðskiptum og auknu samstarfi.

Stjórnmálaskýrendur í Bretlandi telja að þetta útspil Johnson, sem hefur bæði komið fram sem stuðningsmaður Camerons og stundum verið honum ljár í þúfu, sýni að Johnson horfi til þess að verða arftaki Cameron í embætti leiðtoga Íhaldsmanna. Telji hann væntanlega líklegra til vinsælda þegar til lengri tíma sé litið að styðja nú útgöngu úr sambandinu.

Boris Johnson, borgarstjóri London.
Boris Johnson, borgarstjóri London. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert