„Allt ríkisstjórninni að kenna“

Emma Colonel
Emma Colonel Skjáskot af Twitter

Eiginkona mexí­kóska eit­ur­lyfja­baróns­ins Joaquin „El Chapo“ Guz­mán, fegurðardrottningin fyrrverandi Emma Coronel, sakar mexíkósk yfirvöld um að bera ábyrgð á því að breyta yndislegum eiginmanni í eftirlýstan glæpamann. 

Viðtalið við Coronel var birt á bandarísku sjónvarpsstöðinni Telemundo, sem er spænskumælandi, í gærkvöldi. Þar lýsti hún Guzmán sem gáfuðum og ástríkum manni sem hún efist um að sé í eiturlyfjaviðskiptum.

Vissi ekki að eiginmaðurinn væri blóðþyrstur eiturlyfjabarón og nauðgari

„Mexíkóska ríkisstjórnin dregur upp þá mynd af Joaquin Guzmán að hann sé eftirlýstasti glæpaforinginn - það þarf hins vegar ekki að þýða að hann sé það,“ segir Coronel sem er 26 ára gömul og móðir tvíburastúlkna sem þau Guzmán eignuðust í Bandaríkjunum. 

Hún segist ekki vita hvort ríkisstjórnin gera það með vilja til þess að hylma yfir mikilvægari hluti því það sem stjórnvöld segi virðist vera mjög yfirdrifið. 

„Ég hef enga vitneskju um að hann væri í eiturlyfjasmygli,“ segir hún í viðtalinu en Guzmán var handtekinn að nýju 8. janúar eftir að hafa flúið úr öryggisfangelsi hálfu ári fyrr. Hann er aftur kominn á sinn gamla stað, Altiplano fangelsið sem er í um 90 km fjarlægð frá Mexíkóborg.

Colonel neitar því að Guzmán sé einn af ríkustu mönnum heims og hún hafi ekki hugmynd um hvar allir þeir milljarðar Bandaríkjadala sem hann á að hafa falið séu niðurkomnir. „Ég veit ekki hvaðan þeir hafa það að hann sé blóðþyrstur, jafnvel nauðgari,“ segir hún og bætir við að það sé óréttlátt hvaða fáránlegar sakir séu bornar á hann. Allt sem hafi verið sagt sé aðeins ágiskanir þar sem ekki hefur verið réttað yfir honum né hann dæmdur.

Segir Guzmán sæta slæmri meðferð

Til þess að koma í veg fyrir að Guzmán flýi úr fangelsinu í þriðja skiptið eru tveir verðir fyrir framan klefa hans allan sólarhringinn og eru þeir með myndavélar á hjálmum sínum til þess að fylgjast með hverju skrefi hans. Eins flytja þeir hann reglulega milli klefa til þess að koma í veg fyrir flótta. Jafnframt er hundur látinn smakka matinn hans á undan honum til þess að tryggja að ekki verði eitrað fyrir honum.

Guzmán og Coronel gengu í hjónaband árið 2007 í Durango ríki þegar hún var átján ára gömul. Hún segist óttast um líf eiginmannsins, sem er 61 árs gamall, og að það sé komið illa fram við hann í fangelsinu vegna þess hversu mikið hann lítilsvirti yfirvöld með því að flýja í fyrra.

„Þeir leyfa honum ekki að sofa, hann fær ekki að fara einn á klósettið og þeir leyfa honum jafnvel ekki að fá sér göngutúr í fangelsisgarðinum,“ segir hún.

Joaquin Guzmán Loera aka
Joaquin Guzmán Loera aka "El Chapo" AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert