Ól stúlkuna upp eins og sína eigin

Réttarhöld hófust yfir konu í Suður-Afríku í dag sem er ákærð fyrir að hafa stolið nýfæddu barni fyrir tæpum nítján árum. Málið komst upp þegar skólanemendur tóku eftir því hvað stúlka í skólanum og ný stúlka í skólanum voru sláandi líkar.

Konan, sem er er fimmtug að aldri, hefur verið laus gegn tryggingu síðan í mars í fyrra eftir að lífsýni staðfestu að nýja stúlkan í skólanum og önnur stúlka væru systur.

Yngri stúlkan er dóttir Celeste og Morne Nurse, en elstu dóttur þeirra var rænt þegar hún var þriggja daga gömul af sjúkrahúsi í Höfðaborg. Stúlkunni, sem heitir Zephany, var stolið á Groote Schuur sjúkrahúsinu í apríl 1997.

Nurse hjónin höfðu samband við lögreglu eftir að þau sáu Zephany og voru sannfærð um að þar væri dóttir þeirra komin. En það sem þau vissu ekki var að Zephany bjó allan tímann í aðeins nokkurra kílómetra frá þeim. Nurse hjónin eignuðst þrjú önnur börn, Cassidy, 14, Joshua, 9, og Micah, 7.

Zephany, sem fékk nýtt nafn hjá nýju fjölskyldunni, var alin upp af konunni sem stal henni og eiginmanni hennar. Þar bjó hún við gott atlæti alla tíð en hún hafði ekki hugmynd um að þau væru ekki raunverulegir foreldrar hennar.

Konan sem stal henni hafði ítrekað misst fóstur áður en hún stal Zephany á sjúkrahúsinu. Hún er laus gegn tryggingu með því skilyrði að hún reyni ekki að hafa samband við eiginmann sinn né dóttur. Ef hún verður dæmd sek þá á hún yfir höfði sér fimm ára fangelsi.

AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert