Ákærðir fyrir hópnauðgun í Noregi

AFP

Fjórir karlar hafa verið ákærðir fyrir að hafa nauðgað nítján ára gömlum pilti í búðum flóttafólks í Vestfold í Suður-Noregi. Þeir eru einnig ákærðir fyrir að hafa valdið manninum alvarlegu líkamstjóni.

Fjórmenningarnir og fórnarlambið þekktust allir áður en þeir komu til Noregs og sóttu um hæli þar. Lise Dalhaug, saksóknari, segir í viðtali við Dagbladet að meðal sönnunargagna sé myndskeið sem árásarmennirnir tóku af nauðguninni.

Árásin átti sér stað 4. desember í miðstöð flóttamanna í Stokke í Vestfjöld. Fórnarlambið var flutt á sjúkrahús eftir árásina og var með alvarlega áverka eftir nauðgunina.

Þrír af þeim sem eru ákærðir hafa setið í gæsluvarðhaldi frá því í desember en sá fjórði var handtekinn í Stokkhólmi á föstudagskvöldið eftir að handtökuskipun var gefin út á hendur honum. Þremenningarnir sem voru handteknir í desember og fórnarlambið eru allir hælisleitendur en sá sem var handtekinn á föstudag er með hæli í Svíþjóð. Hann hefur verið framseldur til Noregs í tengslum við rannsókn málsins.

Í frétt Dagbladet kemur fram að einn fjórmenninganna sé höfuðpaurinn en sá neitar að hafa tekið þátt í árásinni en viðurkennir að hafa verið viðstaddur.

Frétt Dagbladet í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert