Lotningin varði Savile

Jimmy Savile árið 2002. Eftir dauða hans kom ýmislegt misjafnt …
Jimmy Savile árið 2002. Eftir dauða hans kom ýmislegt misjafnt loks upp á yfirborðið. AFP

Niðurstaða skýrslu um barnaníð Jimmys Savile þegar hann starfaði hjá breska ríkisútvarpinu BBC er sú að menning „lotningar“ fyrir frægu fólki hjá stofnuninni hafi hjálpað við að verja hann. Sú menning hafi gert starfsmönnum erfitt fyrir að lýsa áhyggjum sem gætu „ruggað bátnum“.

Savile var þjóðþekktur á Bretlandi frá 7. áratug síðustu aldar allt þar til hann lést árið 2011 en frægastur var hann fyrir að hafa stjórnað tónlistarþættinum „Top of the Pops“ á BBC. Eftir andlát hans var loks ljóstrað upp að hann hafi nýtt sér frægð sína til að misnota unga aðdáendur sína.

„Það var lotning fyrir og ótti við að ef menn gerðu eitthvað sem mislíkaði stjörnunum þá gætu þær yfirgefið BBC,“ segir Janet Smith, höfundur skýrslunnar sem heldur því fram að þetta andrúmsloft ótta sé enn ríkjandi hjá ríkisfjölmiðlinum.

Smith fann hins vegar engin gögn sem bentu til þess að BBC hafi vitað af óviðeigandi kynferðislegum athöfnum Savile á meðan hann starfaði fyrir stofnunina.

Rona Fairhead, stjórnarformaður BBC-sjóðsins sem sér um rekstur stofnunarinnar, viðurkennir að BBC hefði brugðist fórnarlömbum Savile.

„Það leit undan þegar það hefði átt að varpa ljósi,“ segir Fairhead.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert