„Fólki líður betur“

Andstæðar fylkingar í Sýrlandsstríðinu sökuðu hvor aðra um að hafa vanvirt vopnahléið í landinu í dag en að mati Sameinuðu þjóðanna hefur það verið virt að mestu leyti.

Neyðaraðilar reyna nú að nota tímann á meðan vopnahléið stendur til þess að koma birgðum til fólks sem þurfa aðstoð. 270.000 hafa fallið í stríðinu í Sýrlandi sem hófst fyrir tæpum fimm árum.

Ef vopnahléið gengur vel myndi það líklega hafa góð áhrif á friðarviðræður í deilunni en þær mistókust í snemma í febrúar.

Salem al-Meslet, talsmaður HNC nefndarinnar svokölluðu, sem sér um samningaviðræður fyrir hönd uppreisnarmanna í Sýrlandi sagði að ástandið væri nú betra en áður en vopnahléið hófst. „Vopnahléið hefur verið vanvirt hér og þar en í heildina litið er staðan miklu betri en áður og fólki líður betur,“ sagði al-Meslet og bætti við að stjórnarandstaðan vildi að vopnahléið myndi „vara að eilífu“ og sagði það á ábyrgð Bandaríkjanna að stöðva öll brot á samkomulaginu.

HNC nefndin skrifaði í dag bréf til Ban Ki-moon, aðalritara Sameinuðu þjóðanna þar sem greint var frá því að Sýrlandsstjórn og bandamenn þeirra hafi framið 24 brot á vopnahléinu með sprengjuárásum og fimm hernaðaraðgerðum á jörðu niðri.Var ráðist á svæði undir stjórn „hófsamra uppreisnarmanna“. Bréfið er undirritað af Riad Hijab, formanni nefndarinnar, sem sakar Rússa einnig um að hafa gert 26 loftárásir á svæði þar sem vopnahléið er í gildi. Að sögn Hijab létu 29 manns lífið og tugir særðust.

Hann varaði jafnframt við því að það yrði „ómögulegt“ að hefja friðarviðræðurnar að nýju í þessum aðstæðum. Nefndin útskýrði þó ekki í bréfinu hvernig fylgst væri með brotunum.

„Ég þóttist ekki heyra neitt“

Íbúar Damaskus reyna nú að nýta tímann á meðan vopnahléið stendur yfir. Námsmaðurinn Mehdi al-Ani eyddi deginum á kaffihúsi með vinum sínum. „Í gær heyrðum við aðeins í tveimur eða þremur sprengjum en ég þóttist ekki heyra neitt. Ef guð lofar heldur vopnahléið áfram.“

Bresku eftirlitssamtökin Syrian Observatory for Human Rights greindi frá því að loftárásir hefðu verið gerðar á sjö þorp í Hama og Aleppo héruðum. Talið er að annað hvort hafi sýrlenskir eða rússneskir hermenn verið að verki. Ekki er vitað hvort að árásirnar hefðu verið gerðar á svæði þar sem vopnahléið er í gildi en það útilokar svæði þar sem Ríki íslams og Al-Nusra ráða ríkjum.

Að sögn SOHR er aðeins eitt þorpanna undir yfirráðum Al-Nusra en uppreisnarmenn halda til í hinum þorpunum.

Staffan de Mistura, fulltrúi SÞ í málefnum Sýrlands, stefnir að því að hefja friðarviðræður að nýju 7.mars en aðeins ef vopnahléið endist og meiri neyðarbirgðum er komið til Sýrlendinga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert