Trump og Clinton spáð sigri

Stórsigur Trump í Suðurríkjunum mun að öllum líkindum marka endalok …
Stórsigur Trump í Suðurríkjunum mun að öllum líkindum marka endalok kosningabaráttu hinna mótframbjóðenda hans. AFP

Donald Trump og Hillary Clinton eru talin nær örugg um að að komast yfir síðasta hjalla forkosninganna til forsetakjörs Bandaríkjanna takist þeim að skjóta keppinautum sínum ref fyrir rass á ofurþriðjudeginum svokallaða.

Á morgun er stærsti kjördagur forkosninganna en  kosið verður í þrett­án ríkj­um samtals. Í tveimur ríkjanna, Alaska og Wyoming fara þó aðeins fram forkosningar repúblíkana.

Bæði Clinton og Trump hafa eitt þessum síðasta degi fyrir kosningarnar í að reyna að höfða til kjósenda og beina kjósendum frá öðrum frambjóðendum, að því er AFP greinir frá.

„Ég þarf ykkar hjálp við að fara að kjósa á morgun, við að taka fólk með ykkur að kjósa,“ sagði Clinton  yfir fjölmennan hóp stuðningsmanna í Springfield, Massachusetts. Hún vann sannfærandi sigur í Suður-Karólínu en ferðaðist engu að síður til fjölda ríkja til að hvetja fólk til að mæta á kjörstað.

Í ræðu sinni í Springfield beindi hún einnig spjótum sínum að þeirri fjandsamlegu orðræðu sem ríkir í forkosningum repúblíkana sem leidd er áfram að Donald Trump.

Sagði hún skaranum að mikilvægt væri að leyfa sér ekki að finna blóraböggla eða kenna öðrum um lík

„Það sem við getum ekki látið gerast er að finna blóraböggla, skella skuldinni á [aðra] eða kenna [öðrum] um eins og er að gerast á hlið repúblíkana.,“ sagði Clinton og bætti við að slík iðja myndi vega að undirstöðu Bandaríkjanna.

Kosningabarátta Trump hefur snúið bandarískum stjórnmálum á haus. Hann er skýrt skotmark og á síðustu dögum hefur Marco Rubio aukið mjög á kraft árása sinna á Trump sem persónu og pólitíkus. Rubio hefur sérstaklega undirstrikað að Trump sé ekki góður kostur í slagnum gegn demókrötum og sé búin alvarlegum veikleikum þegar kemur að almennum kosningum um forsetaembættið.

Sagði hann fylgismönnum sínum í Tennessee að fjölmiðlar og gagnrýnendur myndu hoppa á Trump „eins og hundar helvítis“ fari hann með sigur í forkosningunum. „Þeir rífa hann í tætlur og fá svo Hillary Clinton kjörna,“ sagði Rubio sem stendur staðfastlega við þá fullyrðingu að hann sé í betri stöðu til að sigra Clinton.

Hillary Clinton í Boston í dag.
Hillary Clinton í Boston í dag. AFP

Með 49 prósent á landsvísu

AFP segir Trump þó greinilega í bílstjórasætinu og að hann leiði í skoðanakönnunum í átta af ellefu ríkjum ofurþriðjudagsins. Könnun á vegum CNN sem gefin var út í dag sýnir að milljarðamæringurinn hefur aukið enn á forskot sitt á landsvísu og nýtur ný 49 prósenta stuðnings samanborið við 16 prósenta stuðning Rubio.

Ted Crux situr þar í þriðja sæti með 15 prósent og Ben Carson í því fjórða með 10 prósent. Lestina rekur John Kasich með sex prósent fylgi.

Morgundagurinn verður mikil prófraun fyrir Repúblíkanaflokkinn þar sem reyna mun á forgangsröðun og seiglu hans. Einnig mun þar reyna á hvort aðgangsharka Rubio í garð Trump muni hafa áhrif á kjósendur.

Trump „er Bernie Madoff bandarískra stjórnmála,“ sem heldur úti pólitísku „pýramídasvindli,“ sagði Rubio við Fox News og vísaði þar til fyrrum fjárfestingaráðgjafans sem hlaut lífstíðarfangelsi fyrir umfangsmestu fjársvik í sögu Bandaríkjanna.

„Við ætlum að draga af honum grímuna,“ bætti Rubio við.

Ted Cruz ávarpar fylgismenn sína í Dallas, Texas.
Ted Cruz ávarpar fylgismenn sína í Dallas, Texas. AFP

Í vandræðum vegna Ku Klux Klan

Digurbarkalegar og stuðandi yfirlýsingar Trump, sem hefur m.a. sakað Mexíkó um að senda nauðgara og glæpamenn yfir landamærin og hvatt til banns gegn múslimum, hefði orðið venjulegum frambjóðanda að falli.

En 2016 er langt því frá eðlilegt kosningarár og reiðir kjósendur flykkjast í kringum utangarðsmenn sem eru tilbúnir að vinna gegn ríkjandi kerfi.

Nýjasta deilumálið tengt framboði Trump er komið til eftir að hann kom sér undan því að fordæma og afneita stuðningi David Duke, hvítum öfgahyggjumanni sem er fyrrum leiðtogi Ku Klux Klan, í sjónvarpsviðtali.

Rubio hefur sagt Trump „ókjósanlegan“ vegna þessa. Frambjóðandi repúblíkana árið 2012, Mitt Romney, bætti rödd sinni við kór þeirra sem fordæmdu Trump á Twitter. Sagði hann viðbrögð Trump vera ógeðsleg og dæma hann úr leik. „Dekur hans við ógeðfellt ofstæki er ekki í anda Bandaríkjanna.“

Trump kenndi í dag „slæmu heyrnartóli“ um klúðrið og sagði það hafa komið í veg fyrir að hann heyrði spurningu viðkomandi fréttamanns um Duke

 „Ég afneitaði David Duke. Alla helgina á Facebook og Twitter og augljóslega er það aldrei nóg. Fáránlegt,“ sagði hann við NBC.

Marco Rubio ásamt ríkisstjóra Suður-Karólínu, Nikki Haley.
Marco Rubio ásamt ríkisstjóra Suður-Karólínu, Nikki Haley. AFP

Texas er stærsti bitinn

Ef Trump hlýtur stórsigur í Suðurríkjunum þar sem margar forkosningar morgundagsins munu fara fram gæti það þýtt endalokin fyrir aðra frambjóðendur repúblíkana. Jafnvel Ted Cruz hefur sagt að það myndi gera Trump „óstöðvanlegan“.

Erki-íhaldsmaðurinn Cruz er sjálfur frá Texas sem er stærsti bitinn í kosningum morgundagsins og mikið ríður á því að hann fari með sigur í heimaríki sínu. Hann leiðir hinsvegar ekki í neinu öðru ríki utan Arkansas.

Fyrir repúblíkana snýst morgundagurinn um tæplega 600 kjörmenn sem frambjóðendurnir geta tryggt sér en það er um helmingur þeirra 1.237 sem þeir þurfa til að tryggja tilnefningu flokksins.

Slagurinn snýst um svipaða tölu fyrir demókrata. Clinton leiðir í öllum ríkjunum utan heimaríkis Sanders, Vermont. En Sanders sem lýsir sér sem lýðræðissinnuðum jafnaðarmanni hefur sannað að hann er seigur og í dag barst tilkynning úr herbúðum hans um að í febrúar hefðu safnast 36 milljónir Bandaríkjadala vegna framboðs hans sem er persónulegt met kosningaherferðarinnar.

Bernie Sanders gæti enn sótt í sig veðrið.
Bernie Sanders gæti enn sótt í sig veðrið. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert