Bandaríkjamenn ganga til kosninga

Vestanhafs eru Bandaríkjamenn byrjaðir að greiða atkvæði sín í forkosningum flokkanna sem fram fara í dag á Ofurþriðjudeginum. Svo kallast þessi dagur því hann er talinn vera sá veigamesti í löngu ferli þar sem flokksmenn velja frambjóðendur til forsetakosninganna í nóvember.

Fyrsta ríkið til að opna kjörstaði sína var Virginía klukkan sex í morgun að staðartíma, eða klukkan 11 fyrir hádegi að íslenskum tíma. Alls halda 12 ríki forvalskosningar eða -kjörfundi í dag og vonast Hillary Clinton og Donald Trump hvort um sig að með þeim muni þau gera út um keppinauta sína.

Frétt mbl.is: Trump og Clinton spáð sigri

Næstum 600 fulltrúar, sem síðar munu kjósa um hvaða frambjóðanda flokkurinn skuli tilnefna, eru fáanlegir í forvalskosningum repúblikana í dag. Texas er þar stærsti og eftirsóttasti bitinn, en úr ríkinu koma alls 155 fulltrúar. Frambjóðendur þurfa 1.237 fulltrúa til að tryggja sér tilnefningu flokksins.

Hjá demókrötum eru 865 fulltrúar í húfi, eða 36% þess fjölda sem þarf til sigurs þeim megin gangsins. Til nánari skýringar á flóknum forkosningum Bandaríkjamanna vísast til ítarlegrar umfjöllunar mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert