Kröftugur jarðskjálfti í Indónesíu

Frá Jakarta, höfuðborg Indónesíu.
Frá Jakarta, höfuðborg Indónesíu. AFP

Kröftugur jarðskjálfti af stærðinni 7,9 á Richter reið yfir Indónesíu, suðvestur af eyjunni Súmötru. Flóðbylgjuviðvörun hefur verið sett í gang, samkvæmt AFP-fréttastofunni.

Upptök skjálftans urðu á tíu kílómetra dýpi, nokkur hundruð kílómetrum frá borginni Padang á Súmötru. 

Indónesía liggur á flekaskilum og því eru jarðskjálftar í landinu tíðir. 

Blaðamaður AFP sem er á staðnum segir að íbúar í Padang hafi hlaupið út af heimilum sínum þangað sem land stóð hærra. 

Töluverð ringulreið varð á götum borgarinnar vegna skjálftans. Litlar líkur eru samt taldar á manntjóni eða skemmdum á byggingum. 

Árið 2004 varð mikill jarðskjálfti neðansjávar í Indlandshafi sem setti af stað flóðbylgju. Hún varð yfir 170 þúsund manns að bana í Indónesíu og tugum þúsundum til viðbótar í fleiri löndum í kringum Indlandshaf. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert