„Ég óttast ekkert“

Lula gaf yfirlýsingu um sakleysi sitt á fjölmennum blaðamannafundi.
Lula gaf yfirlýsingu um sakleysi sitt á fjölmennum blaðamannafundi.

Fyrrum forseti Brasilíu, Luiz Inacio Lula da Silva hefur svarið þess eið að berjast gegn ásökunum þess efnis að hann hafi átt hlut í risavöxnu mútuhneykslismáli sem olíurisinn Petrobras stóð fyrir.

„Ég óttast ekkert,“ sagði hann samkvæmt BBC, eftir að hafa verið yfirheyrður í dag vegna ásakana um að hann hafi þegið milljónir dollara ólöglega.

Lula var í embætti til 2011 en vinstri sinnaður flokkur hans, verkamannaflokkurinn, hefur orðið fyrir miklu höggi vegna langvarandi hneykslismálsins.

Skammlíft gæsluvarðhald Lula leiddi til áfloga utan við heimili hans í nágrenni Sao Paulo milli andstæðinga hans og stuðningsmanna. Í fyrstu yfirlýsingu sinni eftir yfirheyrslurnar sagði hann við fjölmiðla: „Ef þeir vildu heyra frá mér hefðu þeir bara þurft að hringja og ég hefði komið, af því að ég skulda engum neitt og óttast ekkert.“

Petrobras réttarrannsóknin, betur þekkt sem „Oporation Car Wash“ hefur leitt til réttarhalda yfir tugum stjórnenda fyrirtækja sem og meðlima Verkamannaflokksins sem sakaðir eru um að taka þátt í hneykslismálinu sem snýst um mútur upp á fleiri milljarða. Forseti Brasilíu hefur komið úr röðum Verkamannaflokksins frá 2003 en arftaki Lula, Dilma Rousseff, er einnig meðlimur flokksins.

Í nýjustu aðgerðunum í málinu framkvæmdi lögregla 33 húsleitir og hneppti 11 í gæsluvarðhald í Ríó de Janeiro, Sao Paulo og Bahia.

Lula er grunaður um að hafa þegið um 30 milljónir reais eða um milljarð íslenskra króna í ræðulaun og í framlög til góðgerðarstofnunar hans, Luna stofnunarinnar. Saksóknarar segja 60 prósent allra framlaga til stofnunarinnar hafa verið greidd af fimm stærstu kaupsýslumönnunum sem viðrinir eru „Car Wash“ hneykslið. Þá hefur lögregla sagt sönnunargögn fyrir því að Lula hafi hagnast á glæpum tengdum hneykslinu og að hann hafi fjármagnað framboð sem og flokk sinn í gegnum þá.

Þó hefur Lula ekki verið kærður enn sem komið er. Lula stofnunin sagði í yfirlýsingu að „ofbeldið“ gegn forseta hennar væri „handahófskennt, ólöglegt og óréttlætanlegt,“ þar sem hann hafi verið samstarfsþýður við rannsókn málsins. Verkamannaflokkurinn kallaði aðgerðina „pólitískt sjónarspil“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert