Innsigla norðurkóreskt skip

Skipið Jin Teng verður innsiglað í Fillippseyjum.
Skipið Jin Teng verður innsiglað í Fillippseyjum. AFP

Yfirvöld í Filippseyjum hafa lagt hald á norðurkóreskt skip, sem siglir undir fána Síerra Leóne, en það gerðu þau vegna hertra efnahagsþvingana Sameinuðu þjóðanna gegn N-Kóreu. Um er að ræða hörðustu efnahagsþvinganir gegn landinu hingað til en refsiaðgerðirnar eru til komnar vegna tilrauna N-Kóreu með langdræg flugskeyti og kjarnorku.

Manolo Quezon, staðgengill fjölmiðlafulltrúa forseta Filippseyja, sagði að landið „yrði að sinna sínu hlutverki til þess að framfylgja efnahagsþvingununum“ en skipið er nú við höfn í Subic Bay þar sem verið er að afferma pálmakjarna sem voru um borð. Viðskiptaþvinganirnar kveða m.a. á um að rannsaka skuli allan varning sem fluttur er til og frá N-Kóreu.

Filippseyjar hyggjast innsigla skipið Jin Teng og á endanum vísa skipverjum úr landi. Að sögn talsmanns landhelgisgæslu Filippseyja voru áhafnarmeðlimirnir, 21 talsins, mjög samstarfsfúsir.

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert