Komst tvisvar til Bandaríkjanna

Joaquin „El Chapo“ Guzmán
Joaquin „El Chapo“ Guzmán AFP

Mexíkóski eiturlyfjabaróninn Joaquin „El Chapo“ Guzmán fór tvisvar til Bandaríkjanna til þess að heimsækja ættingja eftir að hafa flúið úr öryggisfangelsi í Mexíkó á síðasta ári. Þetta fullyrðir ein af dætrum Guzmáns í samtali við breska dagblaðið Guardian.

Dóttirin, Rosa Isela Guzman Ortiz sem býr í Kaliforníu-ríki í Bandaríkjunum, segir að faðir hennar hafi komið til landsins skömmu eftir fund sinn í október með bandaríska kvikmyndaleikaranum Sean Penn. Hann hafi komið til Kaliforníu með aðstoð spilltra mexíkóskra embættismanna. Hún hefur ekki gefið upp nákvæmar dagsetningar en sagði dagblaðinu að Guzmán hafi tvisvar farið yfir landamærin til að heimsækja ættingja sína. Hann hafi meðal annars viljað sjá einbýlishúsið sem hann hafi keypt fyrir hana.

„Pabbi lagði peningana inn á bankareikning með aðstoð lögfræðings og skömmu síðar kom hann til þess að sjá húsið, húsið hans. Hann kom tvisvar,“ sagði Ortiz en hún er bandarískur ríkisborgari og stundar fyrirtækjarekstur í Kaliforníu.  Hún neitaði að upplýsa nákvæmlega með hvaða hætti svo eftirlýstur maður hafi komist til Bandaríkjanna enda vissi hún það ekki. Hún segist hafa spurt hann að því sama en engin svör fengið við því.

Fram kemur í frétt AFP að eiturlyfjahringur Guzmáns hafi notast við göng til þess að smygla eiturlyfjum til Bandaríkjanna og fyrir vikið sé líklegt að hann hafi getað komist með þeim hætti til landsins. Talsmaður landamæralögreglu Bandaríkjanna segir yfirvöld ekki hafa upplýsingar sem styðji við frásögn Ortiz.

Guzmán flúði úr öryggisfangelsinu í júlí á síðasta ári í gegnum göng og var loks handtekinn í janúar. Það var í annað sinn sem hann flúði úr fangelsinu. Ortiz fullyrðir að faðir hennar hafi flúið úr fangelsinu í síðara skiptið með aðstoð háttsettra embættismanna. Hann hafi greitt háar fjárhæðir í kosningasjóð þeirra. Um hafi verið að ræða samning við þá. Fangelsisstjóri fangelsisins og fangelsismálastjóri Mexíkó eru á meðal 30 einstaklinga sem eru í haldi í tengslum við flóttann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert