Tekin upp í gegnum gægjugat

Erin Andrews gengur inn í réttarsal í síðustu viku.
Erin Andrews gengur inn í réttarsal í síðustu viku. AFP

Bandaríska íþróttafréttakonan Erin Andrews fær 55 milljónir bandaríkjadala eða rúmlega sjö milljarða íslenskra króna, í skaðabætur eftir að af henni var tekið myndband á laun þar sem hún gekk nakin um hótelherbergi árið 2008. Michael David Barret tók Andrews upp í gegnum gægjugat á hurð hótelherbergis og birti myndbandið á netinu.

Að mati dómara bar Barret 51% ábyrgð á myndbandinu en tvö hótelfyrirtæki voru einnig dæmd sek og þurftu að greiða Andrews um 27 milljónir bandaríkjadala í bætur. 

Andrews grét í réttarsalnum þegar dómurinn var kveðinn upp og faðmaði lögmenn sína og fjölskyldu. Á Twitter sagðist hún hafa fengið stuðning frá öðrum fórnarlömbum um allan heim.

„Með þeirra stuðningi gat ég sett ábyrgðina yfir á þá sem eiga að vernda öryggi og einkalíf allra,“ skrifaði hún á Twitter.

Andrews lögsótti Barratt og tvö fyrirtæki sem stóðu að rekstri hótelsins í Nashville þar sem myndbandið var tekið upp.

Barrett er tryggingasölumaður frá Chicago. Hann viðurkenndi að hafa tekið Andrews upp og sagðist hafa gert það til þess að græða peninga. Hann birti myndbandið á netinu eftir að slúðurmiðillinn TMZ neitaði að kaupa það.

Barrett viðurkenndi að hafa setið um Andrews og átt við gægjugat hurðarinnar til þess að geta tekið hana upp á myndband. Hann var dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi.

Andrews sagði að atvikið hefði hrætt sig og gert sig þunglynda og kvíðna. Hún þarf nú alltaf að leita að földum myndavélum í hótelherbergjum og búningsklefum vegna atviksins.

Við réttarhöldin sagði hún að það hefði verið erfiðast þegar sögusagnir komu upp um að hún hefði birt myndbandið sjálf í leit að athygli. Sagði hún tárvot að það hefði verið mikið áfall.

Barrett sagði við réttarhöldin að hann hefði valið að taka Andrews upp því hún væri vinsæl fréttakona.

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert