Leita að kafbáti við Norður-Kóreu

Kim Jong-Un leiðtogi Norður-Kóreu.
Kim Jong-Un leiðtogi Norður-Kóreu. AFP

Ekkert samband er nú við norður-kóreskan kafbát sem talið er að sé staðsettur einhvers staðar í hafinu austur af Norður-Kóreu. Bandarískir embættismenn staðfesta þetta við fréttastofu CNN, en Bandaríkjaher hafði fylgst með ferðum kafbátsins undanfarna daga.

Á Kóreuskaga standa nú yfir umfangsmestu heræfingar til þessa þar sem bandarískar og suður-kóreskar hersveitir æfa hernaðaraðgerðir gegn ráðamönnum í Pyongyang. Alls eru við æfingar um 15.000 bandarískir hermenn og hátt í 300.000 manns úr röðum hersveita Suður-Kóreu.

Samhliða þessum æfingum hefur Bandaríkjaher einnig fylgst grannt með ferðum norður-kóresks kafbáts sem var á siglingu við austurströnd landsins. Er nú talið að ráðamenn í Pyongyang hafi misst allt samband við bátinn og að hann sé hættur siglingum.

Fylgjast gervitungl Bandaríkjahers, flugvélar og skip nú grannt með sjóher Norður-Kóreu sem sent hefur flota til leitar. 

Ekki er vitað hvort kafbáturinn sé sokkinn eða einungis undir yfirborðinu, en talið er að áhöfn hans hafi glímt við einhvers konar bilun.

Hersveitir Bandaríkjanna og Suður-Kóreu eru nú við æfingar á Kóreuskaga.
Hersveitir Bandaríkjanna og Suður-Kóreu eru nú við æfingar á Kóreuskaga. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert