Dómarar fylgi lögum en setji þau ekki

Merrick Garland tekur í hönd Baracks Obama fyrir utan Hvíta …
Merrick Garland tekur í hönd Baracks Obama fyrir utan Hvíta húsið í dag. AFP

Barack Obama Bandaríkjaforseti bað repúblikana um að gefa Merrick Garland sem hann hefur tilnefnt sem hæstaréttardómara sanngjarnt tækifæri þegar hann kynnti Garland við Hvíta húsið í dag. Garland sagði dómara þurfa að leggja eigin sannfæringu til hliðar og fylgja lögum í stað þess að setja þau.

Forsetinn lofaði Garland í hástert þegar hann kynnti hann til leiks á blaðamannafundi við Hvíta húsið nú síðdegis. Þegar hann hafi leitað ráða hjá fulltrúum beggja flokka í dómsmálanefnd þingsins hafi nafn Garland komið upp hjá bæði demókrötum og republikönum. Biðlaði hann til repúblikana um að gefa honum tækifæri en þeir hafa staðið harðir á því að bíða eigi með að skipa nýjan dómara þar til nýr forseti tekur við embætti í janúar á næsta ári.

Sjálfur sagði Garland að trú við lögin og stjórnarskránna hafi verið hornsteinn lífs hans í starfi. Lofaði hann að taka þau gildi með sér í sæti hæstaréttardómara ef þingið staðfesti skipan sína. Obama sagði að Garland myndi nú fara um þinghúsið á morgun og hitta öldungadeildarþingmenn persónulega.

Öllu jafna myndi sá sem forsetinn tilnefnir sem dómara koma fyrir dómsmálanefnd öldungadeildar þingsins. Hún getur ákveðið að samþykkja tilnefninguna eða vísa henni til almennrar atkvæðagreiðslu í öldungadeildinni.

Repúblikanar, sem stjórna báðum deildum þingsins um þessar, mundir hafa hins vegar sagt að þeir muni ekki leyfa ferlinu að fara í gang þar sem þeir vilja að almenningur segi hug sinn á vali forsetans í forsetakosningunum í nóvember. Nýr forseti eigi að skipa dómara í stað Antonins Scalia sem féll frá í febrúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert