Mun berjast fram í rauðan dauðann

Anders Behring Breivik
Anders Behring Breivik AFP

Norski fjöldamorðinginn Anders Behring Breivik er að ávarpa réttinn í dómsmáli sem hann höfðaði gegn norska ríkinu sem hann sakar um mannréttindabrot. Hann segist munu berjast fram í rauðan dauðann fyrir málstað þjóðernissósíalisma, stjórnmálaarms Nasistaflokksins. Það hafi hann gert í 25 ár og engin breyting verði þar á. 

Breivik sakar ríkið um að reyna að drepa hann í fimm ár fyrir að hafa haldið honum í einangrun frá því hann myrti 77 manns í júlí 2011.

Í gær heilsaði öfgasinninn að hætti nasista en fór að beiðni dómarans í dag og sleppti kveðjunni. Norsk yfirvöld sjónvarpa ekki vitnisburði hans beint í sjónvarpi en norskir fjölmiðlar eru með beina lýsingu á netinu. Með því að sjónvarpa ekki beint vonast þau til þess að hægt verði að koma í veg fyrir að hann komi duldum skilaboðum á framfæri við stuðningsmenn sína. Eins er þetta gert í virðingarskyni við fórnarlömb fjöldamorðingjans.

Breivik, sem er 37 ára að aldri, segist vera fyrirmyndar fangi sem sé pyntaður af yfirvöldum. Alls er gert ráð fyrir því að Breivik tali í þrjár klukkustundir í réttarsalnum í dag en hann afplánar 21 árs dóm fyrir morðin 22. júlí 2011. Flest fórnarlamba hans voru ungmenni í ungliðahreyfingu Verkamannaflokksins. Flokks sem Breivik sakar um að bera ábyrgð á fjölmenningunni í Noregi. 

Anders Behring Breivik
Anders Behring Breivik AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert