25 látnir eftir tilræðið

Alls eru 25 látnir eftir sjálfsvígsárás í mosku í norðausturhluta Nígeríu í gær. 22 létust í árásinni en þrír létust af völdum sára sinna á sjúkrahúsi. Auk þess létust tvær konur sem sprengdu sig upp í moskunni í borginni Maiduguri.

Hryðjuverkasamtökin Boko Haram voru sett á laggirnar í borginni en enginn hefur lýst yfir ábyrgð á árásinni. Báðar konurnar voru klæddar í karlmannsföt. Önnur þeirra sprengdi sig upp inni í moskunni en hin fyrir utan moskuna þegar gestir moskunnar flúðu út í kjölfar fyrri sprengingarinnar.

Boko Haram samtökin voru stofnuð árið 2002 og í upphafi var markmið þeirra að berjast gegn vestrænni menntavæðingu en Boko Haram þýðir vestræn menntun er bönnuð á Hausa tungumálinu. Samtökin hófu hernað árið 2009 og hafa þúsundir látist síðan þá í árásum þeirra. Samtökin eru hluti af Ríki íslams og hafa samtökin lýst yfir kalífaveldi í norðausturhluta Nígeríu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert