Fékk morðvopnið í hendurnar

Omar El-Hussein.
Omar El-Hussein. AFP

Hinn 26 ára BH lagði tvo og tvo saman. Hann vissi að Omar el-Hussein var sá sem skotið hafði á fólk í menningarmiðstöðinni Krudttønden þegar el-Hussein afhenti honum sjálfvirkan M95 riffilinn sinn aðeins fáeinum tímum síðar.

Berlingske greinir frá því að í dag hafi BH játað fyrir Héraðsdómi Kaupmannahafnar að hafa fengið vopnið í hendurnar. Tveir létust í árásum el-Hussein þennan dag, kvikmyndagerðarmaður og öryggisvörður auk þess sem þrír lögreglumenn særðust en sænski skop­mynda­teikn­ar­inn Lars Vilks, sem árásin er talin hafa beinst að, slapp.

„En ég tek ekki á móti því. Hann kemur á móti mér í miklu óðagoti. Hann réttir mér eitthvað og ég finn að það er byssa,“ sagði BH. Hann er ákærður fyrir að hafa hjálpað el-Hussein, ásamt 21 árs manni sem einnig er ákærður, við að losa sig við vopnið. Þeir eru að auki sakaðir um að hafa átt þátt í hryðjuverkaárás el-Hussein á bænahús gyðinga í Krystalgade seinna um daginn.

Alls eru fjórir menn ákærðir fyrir hryðjuverk vegna málsins en allir neita þeir sök. El-Hussein lést sjálfur í skotbardaga við lögreglumenn sama dag og árásirnar áttu sér stað.

BH hélt því fram fyrir rétti að það hefði komið honum algerlega að óvörum að standa skyndilega með morðvopnið í höndunum.

„Ég reyndi að rétta honum það aftur. Hann vildi ekki taka á móti því. Svo hugsaði ég að ég vildi kasta henni frá mér. Það var leikvöllur öðru meginn og sparkvöllur hinu megin. Lítil börn allstaðar og ég vildi ekki kasta því þangað.“

Sagði hann að á þeirri stundu hefði hann áttað sig á því hvað Omar el-Hussein hafði gerst sekur um.

„Frá því augnabliki gat ég vel lagt tvo og tvo saman. Ég hafði séð í fréttunum hvað gerðist og svo gefur hann mér þetta þarna.“

Hann undirstrikaði margsinnis að hann hafi áttað sig á því að el-Hussein hefði verið gerningsmaðurinn í Krudt Krudttønden en sagðist aldrei hafa borið það upp við el-Hussein.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert